Malignant og Smagen af Sult koma í bíó í vikunni

Tvær nýjar kvikmyndir koma í bíóhús í þessari viku, nánar til tekið á föstudaginn. Þær eru frekar ólíkar, en ótrúlega áhugaverðar hvor á sinn hátt.

Malignant kemur úr smiðju James Wan ( Saw, Conjuring, Aquaman, Fast 7 osfr. osfrv. ) en yfirleitt er hægt að stóla á sannkallaðan gæðahroll þegar Wan kemur að málum. Auk þess að leikstýra þá er Wan einnig einn handritshöfunda.

Annabelle Wallis skelfingu lostin í símanum í hlutverki sínu í Malignant.

Með aðalhlutverk í myndinni fer Annabelle Wallis ( Tag, The Mummy ofl. ) en með henni leika Maddie Hasson, Mckenna Grace, Jake Abel, George Young, Michole Briana White og Jacqueline McKenzie.

Malignant segir frá Madison sem er sem lömuð vegna ógnvekjandi og hrottalegra morða sem birtast henni í sýnum. Skelfingin vex þegar hún kemst að því að þessar martraðasýnir eru skelfilegur raunveruleiki.

Danskt gæðadrama

Hin myndin sem frumsýnd verður á föstudaginn er frá frændum vorum Dönum og heitir Smagen af Sult á frummálinu en Taste of Hunger á ensku. Með aðal karlhlutverkið fer enginn annar en Game of Thrones og The Other Woman leikarinn Nicola Coster-Waldau. Með aðal kvenhlutverkið fer Katrine Greis-Rosenthal

Leikstjórar eru þeir David Adler og Christoffer Boe.

Myndin segir frá hjónum sem fórna öllu til að ná hæstu viðurkenningu í matreiðsluheiminum, Michelin stjörnu. Maggie er mannfræðingur sem hefur sérhæft sig í máltíðum og hefur búið til glæsilegt umhverfi matsölustaðarins Malus sem þau hjón reka. Carsten er frægur kokkur sem töfrar fram réttina í eldhúsinu. Saman eru þau ósigrandi í dönskum veitingaheimi. Þau elska hvort annað, eiga tvö dásamleg börn og veitingastaðurinn er einn sá vinsælasti í Danmörku. Allt er í frábærum málum nema þeim vantar ennþá Michelin stjörnuna og fyrir hana eru þau tilbúin að fórna öllu.

Moli

Það er gaman að segja frá því að erlendis hefur verið í boði að horfa á sýndarveruleikaútgáfu af myndinni þar sem áhorfendur setja upp sýndarveruleikahjálm og geta valið sé augnablik úr myndinni til að upplifa með þessum hætti.

Sýndarveruleiki