Charlie, í kvikmyndinni The Whale sem kemur í bíó í dag, er næstum 300 kílóa einbúi. Hann er prófessor og kennir ritlist á netinu en gætir þess að hafa slökkt á netmyndavélinni vegna þess að hann þorir ekki að láta nemendur sína sjá sig.
Eini vinur Charlie er hjúkrunarkonan Liz sem annast hann. Hún reynir að fá hann til að leita sér hjálpar þar sem hún óttast að hann eigi alvarlega á hættu að fá hjartaáfall. Annar gestur á heimili Charlies er Thomas, kristniboði á vegum trúsöfnuðar sem berst gegn samkynhneigð. Hann lítur á það sem sitt hlutverk að frelsa Charlie. Mjög andar köldu milli Thomas og Liz.
Í samband við dóttur sína
Charlie er að reyna að komast aftur í samband við Ellie, dóttur sína á táningsaldri, sem hann hefur ekki séð í átta ár. Hann býður henni alla sína peninga fyrir að verja tíma með sér án vitundar móður hennar. Hún samþykkir með því skilyrði að hann hjálpi henni að endurskrifa skólaritgerð. Charlie fellst á það en gerir kröfu um að Ellie skrifi í stílabók sem hann gefur henni.
Í ljós kemur að Liz er ættleidd dóttir leiðtoga trúsöfnuðarins sem Thomas gengur erinda fyrir og tengist Alan, ástmanni Charlie, sem framið hafði sjálfsmorð vegna sektarkenndar yfir kynhneigð sinni. Ofát Charlies hafði byrjað í kjölfar dauða Alans.
Þykir vinna leiksigur
Ekki er rétt að rekja atburðarásina lengra hér, en Brendan Fraser þykir vinna mikinn leiksigur sem Charlie í þessari stórfenglegu mynd um mannlega bresti, fordóma, hroka, minnimáttarkennd, væntumþykju, svik og hlýju
Aðalhlutverk: Brendan Fraser, Sadie Sink, Ty Simpkins, Hong Chau, Samantha Morton og Sathya Sridharan
Handrit: Samuel D. Hunter
Leikstjórn: Darren Aronofsky