Lúxussalurinn opnar í dag

Ásberg, nýr VIP-salur Sambíóanna í Kringlunni, opnar formlega í dag fimmtudaginn 3. febrúar.

Lúxussætin Ljósmynd/Jón Páll

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að beðið hafi verið eftir opnun salarins með mikilli eftirvæntingu. Það sé vel skiljanlegt því salurinn sé allur sá glæsilegasti og bjóði upp á áður óþekktar nýjungar í upplifun kvikmyndahúsagesta.

Parasætin góðu.

Salurinn rúmar 72 manns og eru sætin öll fyrsta flokks með öllum þeim þægindum sem hægt er að hugsa sér, til dæmis þráðlausri hleðslu fyrir snjallsíma. Einnig lumar salurinn á nýjung hér á landi þegar kemur að bíóupplifun en fremst í salnum eru glæsileg legusæti þar sem virkilega er hægt að láta fara vel um sig líkt og í sófanum heima. Aftast í salnum er svo að finna sérstök parasæti eða “private panel” þar sem pör geta legið þétt saman og notið sýningarinnar.

Taka mið af nýjum tímum

„Breytingarnar taka mið af nýjum tímum í upplifun kvikmyndahúsagesta, sem vilja njóta gæða kvikmyndarinnar í einstökum Dolby Atmos hljómgæðum og mynd í góðum félagsskap,“ segir í tilkynningunni.

Í allri sinni dýrð.

Hér fyrir neðan má lesa ítarlegri umfjöllun um salinn og sögu Sambíóanna:

Lúxussalurinn Ásberg er einn fullkomnasti kvikmyndasalur á Íslandi og var opnaður í upphafi ársins 2023 í framhaldi af gagngerum endurbótum á 3. hæð Kringlunnar og opnun veitingarýmisins Kúmens. Með nýrri og endurbættri þriðju hæð Kringlunnar er ætlunin að gefa höfuðborgarbúum svo og landsmönnum öllum og erlendum ferðamönnum kost á úrvals þjónustu í mat og drykk me tengingu við verslanir, kvikmyndahús, bókasafn og Borgarleikhús, Ævintýragarð með barnagæslu fyrir yngstu viðskiptavinina og fjölbreytta flóru veitingastaða af öllum stærðum og gerðum sem opnir eru frameftir kvöldi.

Ekki amalegt að njóta Avatar: The Way of Water í nýja salnum.

Fasteignafélagið Reitir og Sambíóin leiddu fyrst saman hesta sína með opnun hins þriggja sala Kringlubíós árið 1996 þegar verslunarmiðstöðvarnar Kringlan og Borgarkringlan voru sameinaðar. Þar með var fyrsta kvikmyndahúsið risið í verslunarmiðstöð hér á landi, en slíkt hafði mjög rutt sér til rúms erlendis, ekki síst í Bandaríkjunum.

27 árum seinna

Fyrirtækin kynna svo nýtt og endurnýjað kvikmyndahús í Kringlunni 27 árum seinna. Ráðist var í metnaðarfullar breytingar á aðkomu og veitingasölu bíósins, litaásýnd þess endurnýjuð og kynntar ýmsar nýjungar í rekstri kvikmyndahúsa hér á landi.

Stærsta og metnaðarfyllsta breytingin á bíóinu er án nokkurs vafa glænýr og glæsilegur VIP salur – Ásberg – sem býður upp á það allra besta sem völ er á þegar kemur að hljóm- og myndgæðum.

Sjoppan er á sínum stað.

Ásberg er nafn sem er samofið fjölskyldunni sem stofnaði Sambíóin og hefur rekið frá stofnun. Eyjólfur Ó. Ásberg (f. 1891, d. 1954) var bakari, verslunarmaður, útgerðarmaður og heildsali í Keflavík ásamt Guðnýju Jónasdóttur (síðar Ásberg) sem rak gisti- og greiðasölu á heimili þeirra hjóna og var máttarstólpi í samfélaginu. Árið 1937 hófu þau rekstur kvikmyndahússins Nýja bíós í Félagshúsum við Túngötu, eða Verkó eins og það var kallað, og níu árum seinna opnaði sérstakt kvikmyndahús sem byggt var í þeim tilgangi og starfar enn.

Gengu í öll störf

Eyjólfur og Guðný Ásberg eignuðust dótturina Elísabetu Ásberg sem síðar tók við rekstri kvikmyndahússins ásamt eiginmanni sínum, Birni G. Snæbjörnssyni. Börn þeirra, Guðný Ásberg og Eyjólfur Ásberg Björnsbörn, tóku líka virkan þátt í starfseminni og gengu frá barnsaldri í öll störf. Eyjólfur Ásberg lést í voveiflegu bílslysi á Reykjanesbrautinni árið 1967, aðeins tvítugur að aldri. Hann var þá við nám í Samvinnuskólanum á Bifröst meðfram því að sinna rekstri kvikmyndahússins með fjölskyldu sinni og var á leið milli Keflavíkur og Reykjavíkur með filmu þegar slysið varð.

Guðný Ásberg Björnsdóttir og eiginmaður hennar Árni Samúelsson verslunarmaður tóku við rekstri kvikmyndahússins og á næstu árum varð til kvikmyndastórveldið Sambíóin hér á landi. Þau hjón voru framsýn og höfðu um árabil staðið fyrir margskonar atvinnurekstri í Keflavík ásamt börnum sínum. Meðal annars hafði Árni bryddað upp á þeirri nýjung að kaupa nýjar myndir erlendis og frumsýna þær í Keflavík.

Hugsaði stórt

Árni hugsaði stórt og því varð ljóst að markaðurinn í Keflavík nægði honum ekki. Eftir ýmsar þreifingar sótti hann um lóð til byggingar stórs fjölsala kvikmyndahúss við neðri mörk Breiðholts, í Álfabakka, rétt við mörk iðnaðarhverfisins í Kópavogi, en þar var að myndast vísir að því verslunarhverfi sem síðan hefur kallast Mjóddin. Þar reis svo stórhýsi Bíóhallarinnar og skemmtistaðarins Broadway.

Nú starfa Sambíóin í Keflavík, Akureyri, Egilshöll, Kringlunni og Álfabakka og gríðarlegur fjöldi landsmanna sækir þau heim ár hvert. Margar kynslóðir í Samfjölskyldunni hafa unnið við bíóreksturinn frá stofnun og nafnið Ásberg er tengt þeim órofa böndum, sem sést vel á því að framkvæmdastjóri kvikmyndahússins í Kringlunni er Alfreð Ásberg Árnason og hefur hann haft yfirumsjón með breytingunum fyrir hönd fyrirtækisins. Það er því viðeigandi að nýjasti salur Sambióanna beri þetta nafn um ókomin ár.

Ásberg í Kringlunni rúmar 72 manns. Sætin eru fyrsta flokks með öllum þeim þægindum sem hægt er að hugsa sér, til dæmis þráðlausri hleðslu fyrir snjallsíma. Einnig lumar salurinn á nýjung hér á landi þegar kemur að bíóupplifun en fremst í salnum eru glæsileg legusæti þar sem virkilega er hægt að láta fara vel um sig líkt og í sófanum heima. Aftast í salnum er svo að finna sérstök parasæti eða “private panel” þar sem pör geta legið þétt saman og notið sýningarinnar.

Breytingarnar taka mið af nýjum tímum í upplifun kvikmyndahúsagesta, sem vilja njóta gæða kvikmyndarinnar í einstökum Dolby Atmos hljómgæðum og mynd í góðum félagsskap á tímum streymisveitna og annarra tækniframfara. Þannig ganga kvikmyndahúsin enn í endurnýjun lífdaga og taka mið af breyttum þörfum í margbreytilegum heimi.

Viðhalda góðum anda

Paolo Gianfrancesco hjá THG Arkitektum sá um að hanna endurbæturnar á húsnæðinu þar sem upplifun og þarfir bíógesta voru hafðar að leiðarljósi en á sama tíma passað upp á að viðhalda þeim góða anda og stemningu sem ætíð er að finna í Sambíóunum Kringlunni. Opnunartími bíósins verður lengri en víða annars staðar en sýningar munu hefjast fyrr á daginn og um helgar verður boðið upp á morgunbíó sem vonandi kemur fjölskyldufólki og öðrum morgunhönum sérlega vel. Áfram er bíóið jafnframt heimavöllur óperusýninga utan úr heimi, eins og verið hefur um árabil.