Fyrr í vikunni sögðum við frá því að Carrie Fisher hafi staðfest að hún myndi snúa aftur í Star Was sem Leia prinsessa, í nýjustu myndina, þá sjöundu í röðinni og þá fyrstu sem Disney framleiðir eftir að fyrirtækið keypti Lucasfilm.
Þó að upplýsingafulltrúi hennar hafi reyndar sagt eftir á að hún hefði verið að grínast, þá sagði sjálfur George Lucas höfundur Star Wars, í samtali við Businessweek tímaritið að jafnvel áður en hann seldi Lucasfilm til Disney þá hafi verið búið að skrifa undir samninga við þau Mark Hamill, Carrie Fisher og Harrison Ford um að snúa aftur og leika persónurnar sem þau léku í fyrstu þremur myndunum, þau Loga geimgengil, Leiu prinsessu og Han Solo.
„Við vorum þá þegar búin að ganga frá samningum – eða við vorum má segja á lokastigi samningaviðræðna.“
„Ég má kannski ekki segja þetta,“ bætti Lucas við eftir smá hlé. „Ég held að þau vilji tilkynna þetta með lúðrablæstri og látum, en staðreyndin er að við vorum í viðræðum við þau. Ég ætla ekki að segja hver lokaniðurstaða þeirra viðræðna var.“
J.J. Abrams mun leikstýra myndinni eftir handriti Óskarsverðlaunahafans Michael Arndt. Myndin verður frumsýnd árið 2015, og síðan koma myndir númer átta og níu á tveggja ára fresti eftir það.