Lítil geimvera þarfnast aðstoðar

earthFjölskyldumyndin Earth to Echo verður frumsýnd á morgun, miðvikudaginn 9. júlí. Myndinni er leikstýrt af Dave Green, en með aðalhlutverk fara Teo Halm, Astro og Reese Hartwig.

Earth To Echo segir frá þremur ungum strákum sem horfa fram á miklar og róttækar breytingar á högum sínum og samverustundum því til stendur að leggja hraðbraut í gegnum hverfið þar sem þeir búa og hafa þær framkvæmdir neytt fjölskyldur þeirra til að finna sér annað heimili og flytja á brott, hverja í sína áttina.

Tveimur dögum áður en til aðskilnaðarins kemur byrja vinirnir hins vegar að móttaka einkennileg merki, eða einhvers konar dulkóðuð skilaboð í símana sína. Þeir sannfærast um að þessi skilaboð komi frá einhverju, eða einhverjum í næsta nágrenni og ákveða ásamt vinkonu sinni, Emmu, að leggja í næturleiðangur síðasta kvöldið sem þau eiga saman í þeirri von um að finna sendandann. Það sem þau finna kemur þeim hins vegar algjörlega í opna skjöldu því þar er á ferðinni lítil geimvera sem þarfnast aðstoðar.

Myndin verður sýnd í Laugarásbíói, Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíó Akureyri.

Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.