Ný mynd af leikaranum Ben Affleck í hlutverki Leðurblökumannsins var opinberuð rétt í þessu. Myndin er forsmekkur fyrir gesti Comic-Con ráðstefnunnar sem hófst í dag í San Diego. Þess má geta að þetta er helsta nærmynd sem hefur verið sýnd af Affleck í hlutverki Svarta riddarans. Á myndinni má sjá brúnaþungan Affleck prýða myndarlegu skarði á hökunni, en hana má sjá hér til vinstri.
Eins og flestir vita er von á nýrri kvikmynd þar sem Leðurblökumaðurinn og Ofurmaðurinn verða í aðalhlutverkum og hefur sú mynd fengið titilinn Batman v Superman: Dawn of Justice. Nafnið gefur að kynna upphafið af ofurhetjuteyminu Justice League, sem er eitt vinsælasta og stærsta ofurhetjulið sem þekkst hefur.
Affleck er hvergi ókunnugur ofurhetjum. Hann lék m.a. titilhlutverkið í kvikmyndinni Daredevil árið 2003. Affleck lék einnig Superman-leikarann George Reeves í kvikmyndinni Hollywoodland, sem var gerð árið 2006.
Leðurblökumaðurinn og Ofurmaðurinn eiga langa sögu í myndasöguheiminum og komu fyrst fram sem tvíeyki í myndasögunni Worlds Finest árið 1954. Þar voru þeir bestu félagar og unnu saman gegn glæpum. Árið 1986 leystist vinskapur þeirra upp þegar Frank Miller gaf út myndasöguna The Dark Knight, í þeirri sögu var bæði mikill pólítískur og heimspekilegur ágreiningur á milli þessara ofurhetja.
Batman v Superman: Dawn of Justice verður frumsýnd þann 6. maí 2016.