Súkkulaðisnúðurinn Leonardo DiCaprio hefur sýnt áhuga á að leika Johnny Eckhardt, í sannsögulegri kvikmynd byggðri á ævi hans og myndi myndin bera heitið Johnny Eck. Eckhardt þessi lék eitt af hlutverkunum í kvikmynd Tod Brownings, Freaks, frá árinu 1932. Hann var sjálfur viðundur og vantaði á hann allan neðri hluta líkamans og kom hann fram á viðundrasýningum í sirkusum undir stjórn eineggja tvíburabróður síns sem starfaði sem umboðsmaður hans. Myndi DiCaprio leika þá báða, en þetta mun þó ekki gerast fyrr en hann hefur lokið við að leika í kvikmyndunum um Alexander Mikla og You Can Count On Me sem hann er með í undirbúningi sem stendur. Handritið að myndinni, sem er alveg að verða tilbúið, er skrifað af Caroline Thompson sem skrifaði einnig handritið að Edward Scissorhands, og mun leitin að leikstjóra ekki hefjast fyrr en handritið er að fullu tilbúið.

