Lengi talið að Bandaríkjamenn hefðu ekki áhuga

Það tók hinn áttræða leikstjóra Michael Mann þrjátíu ár að koma hinni ævisögulegu Ferrari, kvikmyndinni sem frumsýnd var fyrr í vikunni hér á Íslandi, á hvíta tjaldið. Á því tímabili hefur hann margsinnis rekist á veggi og skipt um leikara en nú loksins er myndin komin í bíó.

Það var í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar sem Mann las fyrst handrit Troy Kennedy Martin byggt á bók Brock Yates frá 1991, Enzo Ferrari: The Man and the Machine, en Mann var mjög hrifinn af bókinni. Hann vissi að það yrði ekki ódýrt að kvikmynda bókina og í mörg ár var það talið nær óhugsandi. Hugmyndin væri alltof framandi fyrir bandaríska áhorfendur sem voru uppaldir við bandarískan NASCAR kappakstur og kvikmyndina „Days of Thunder“. En svo uxu vinsældir Formúlu One kappakstursins í Bandaríkjunum og hugmyndinni um myndina skaut upp aftur fyrir um áratug síðan.

Seint árið 2015 munaði nánast engu að kvikmyndin færi af stað með Christian Bale í hlutverki Ferrari, en þá hætti hann við og sagt var að honum hefði fundist hann ekki hafa nægan tíma til að þyngja sig nógu mikið til að túlka Ferrari með sannfærandi hætti. Kaldhæðnislega, þá var minnst á Mann í lok myndarinnar Ford v Ferrari sem aðstoðarframleiðanda vegna ráðgjafar við myndina, en þar lék Bale einmitt breska ökuþórinn Ken Miles. Það var ekki fyrr en árið 2021 sem nægir peningar komu til að hefja tökur á Ferrari sumarið 2022.

Ferrari (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.4
Rotten tomatoes einkunn 73%

Myndin gerist sumarið 1957. Fyrrum kappakstursmaður, Ferrari, er í vanda. Gjaldþrot vofir yfir fyrirtækinu sem hann og kona hans byggðu upp úr engu tíu árum áður. Stormasamt hjónaband þeirra stendur á brauðfótum á sama tíma og þau syrgja son sinn. Ferrari ákveður að taka ...

„Okkur gekk mjög vel að forselja myndina erlendis, og það hjálpaði okkur að fara af stað ásamt skattaívilnunum á Ítalíu,“ sagði Mann við kvikmyndaritið Variety. „Það hjálpaði okkur að gera myndina því hún var ekki ódýr.“

Einn sá fremsti

Adam Driver, sem leikur Ferrari, var spurður að því í samtali við Moviefone, hvernig hafi verið að leika undir stjórn Mann (Heat, Collateral, The Last of the Mohicans) sem blaðamaður kallar einn fremsta leikstjóra allra tíma.

„Ég er sammála þér. Ég held að hann sé einn af merkustu kvikmyndagerðarmönnum allra tíma, og ég horfi á myndirnar hans aftur og aftur og þær hafa veitt mér gríðarlegan innblástur. Hann hefur ótrúlega góðan smekk, og ég segi það ekki bara af því að ég fékk hlutverkið, en smekkur hans á efninu og hvernig hann tekur upp hluti, er frábær. Þannig að þegar þú treystir smekkvísi leikstjóra, þá verðurðu sannfærðari um að verið sé að gera kvikmyndina sem ætlunin er að gera. Hann, á persónulegum nótum, hreyfir við mér. Ég var mjög spenntur að vinna með honum sem persónu og mér er mjög annt um hann, ég elska kvikmyndirnar hans og staðfestu hans við að ná því fram sem hann ætlar sér.“