Snævar Sölvi Sölvason, leikstjóri og handritshöfundur glænýrrar íslenskrar kvikmyndar, Eden, sem frumsýnd var í gær, segist í samtali við Morgunblaðið hafa langað til að gera True Romance á Íslandi, en True Romance er sígild rómantísk glæpamynd sem gerð er eftir handriti bandaríska leikstjórans Quentin Tarantino, en leikstýrt af Tony Scott.
„Mig langaði að gera True Romance á Íslandi,“ útskýrir Snævar í Morgunblaðinu. Hann segir þar að aðalpersónur myndarinnar séu „bara krakkar“ að selja gras eða pillur, en séu ekki skuggalegt fólk í dimmum húsasundum. Þar á hann við að þetta sé fólk sem er kannski bara að hlusta á létta jólatónlist í útvarpinu á meðan það er að setja eiturlyf í poka og vigta og tala um nýja heimildarmynd á Netflix. Enginn dauði né drungi sé í gangi, heldur sé í myndinni slegið á létta strengi inn á milli alvarlegra atriða. Þar með sé myndin fyrir vikið blanda raunsæis, spennu og gríns.
Trainspotting persónur
Snævar, sem áður hefur gert kvikmyndirnar Slay Masters og Albatross, segist í samtalinu einnig hafa litið þónokkuð til kvikmyndarinnar Trainspotting því persónur hennar séu litríkar og oft spaugilegar. „Þetta eru allt stórfurðulegir karakterar og þú hlærð mikið að því sem þeir lenda í en öðru hverju lenda þeir í alveg hrikalegum aðstæðum,“ segir Snævar og nefnir til útskýringar skelfilegt atriði úr Trainspotting þar sem barn finnst látið í vöggu sökum vanrækslu og annað þar sem ein aðalpersónanna hefur óafvitandi misst saur í rúmi unnustu sinnar. Í Eden, líkt og í Trainspotting, megi sjá litríkar persónur í krefjandi aðstæðum.
Lifa á jaðrinum
Nánar um söguþráð kvikmyndarinnar segir Sölvi í Morgunblaðinu að Eden fjalli um par, Lóu og Óliver, sem lifi á jaðrinum. Þau kynnast strax í upphafi, hann er á flótta undan réttvísinni og hún er partístelpa sem er komin í klandur. Þau eru heimilislaus, fella fljótlega hugi saman og komast að því að þau eiga sér sameiginlega drauma sem þau vilja að rætist.
Þau ákveði að færa björg í bú með því að fara í smásölu á götunni, selja gras og annað þvíumlíkt og ætla sér að kýla á draumana. En á þeirri leið komast þau í klandur og upp á kant við vafasama menn.