Óskarsverðlaunaleikkonan Julianne Moore, úr Still Alice, náði ekki að heilla ferðamálaráð Tyrkja, samkvæmt frétt í The Independent, en ráðið hefur hætt við að nota hana í stóra auglýsingaherferð, og sagt að lélegum leik hennar sé um að kenna.
Moore var kynnt sem andlit sérstakrar herferðar í tyrkneskum ferðaiðnaði á síðasta ári og tekin var upp auglýsing í Hollywood, en þegar fulltrúar ferðamálayfirvalda sáu afraksturinn þá kröfðust þeir þess að auglýsingin yrði tekin upp aftur.
Þegar Moore neitaði, var hætt við verkefnið í heild sinni, en kostnaðaráætlun fyrir það hljóðaði upp á litlar 540 milljónir íslenskra króna.
Ráðuneyti ferðamála neitaði að tjá sig um málið, samkvæmt The Independent, en heimildarmenn sögðu tyrkneska blaðinu Hürriyet Daily News að hætt hefði verið við herferðina vegna lakrar frammistöðu Moore.