Spænski leikstjórinn Juan Carlos Fresnadillo er núna í samningaviðræðum um að leikstýra endurgerð á hinni klassísku Highlander. Fyrir þá sem ekki muna þá skartaði hún Christopher Lambert, Sean Connery, Clancy Brown og svakalega mikilli Queen-tónlist.
Upphaflega stóð til boða að láta Justin Lin (Fast & Furious, Fast Five) leikstýra en hann ákvað að snúa aftur til bifreiðaseríunnar frægu og undirbúa Fast Six. Fresnadillo er annars þekktur fyrir 28 Weeks Later og sálfræðidramað Intruders, sem var frumsýnt á kvikmyndahátíðinni í Toronto fyrir stuttu síðan.
Enginn leikari hefur hingað til verið ráðinn og óvíst er hvenær átt er von á myndinni. Hins vegar er reiknað með því að myndin líti dagsins ljós seinnipartinn árið 2012 eða snemma 2013. Þeir Matt Halloway og Art Marcum skrifa handritið á myndinni, en saman skrifuðu þeir Marvel-myndirnar Iron Man og Punisher: War Zone.
Ég held að flestir voni innilega að þetta heppnist betur en Conan the Barbarian.