Spider-Man, eða Köngulóarmaðurinn, snýr brátt aftur til upprunans, þ.e. sem teiknimyndapersóna, í nýrri mynd sem framleiðendur The Lego Movie ætla að gera um ofurhetjuna.
Myndinni, sem frumsýna á árið 2018, verður leikstýrt af Phil Lord og Christopher Miller.
Tvíeykið mun einnig skrifa handritið og framleiða myndina um þessa Marvel persónu sem fyrst kom fram í teiknimyndasögum á sjöunda áratug síðustu aldar.
Þeir Lord og Miller eiga einnig að baki hina geysivinsælu Cloudy With A Chance of Meatballs og 21 og 22 Jump Street, með þeim Jonah Hill og Channing Tatum.
Teiknimyndin um Spider-Man verður sjálfstæð, þ.e. hún verður ekkert tengd leiknu kvikmyndunum fimm sem hafa þénað meira en 2,5 milljarða sterlingspunda í miðasölunni um heim allan.
Næsta leikna Spider-Man mynd er væntanleg í bíó í júlí 2017, en ekki er vitað hver muni leika hetjuna sjálfa. Andrew Garfield, sem hefur leikið Spider-Man í síðustu tveimur myndum, missti hlutverkið og verður því fjarri góðu gamni.
Þeir sem koma til greina í hlutverkið eru, samkvæmt SkyNews vefnum, Nat Wolff, Asa Butterfield, Tom Holland, Timothee Chalamet og Liam James.
Hinn nýi Spider-Man mun koma fram á sjónvarsviðið fyrst í Captain America: Civil War í maí á næsta ári, sem þýðir að menn verða að hafa hraðar hendur.
Teiknimyndin mun hinsvegar koma í bíó 20. júlí, 2018, eins og áður sagði.