Danski leikstjórinn Lars Von Trier hefur ekki einungis getið sér nafn fyrir kvikmyndir sínar heldur einnig fyrir heldur umdeildar yfirlýsingar. En hann hefur væntanlega slegið öll met núna en á blaðamannafundi á Cannes kvikmyndahátíðinni lýsti hann því yfir að hann væri nasisti og finndi til með Hitler.
„Ég komst að því að ég er Nasisti. Fjölskylda mín var þýsk, og það gerði mig glaðan. Hvað get ég sagt? Ég skil Hitler. Hann hefur mín samúð.“ sagði Von Trier við undur viðstaddra.
Leikstjórinn tók samt sem áður fram að honum væri ekki vel við seinni heimsstyrjöldina og væri ekki á móti gyðingum, en bætti þó við, „Ísrael er reyndar byrjað að vera þreytandi.“
Að lokum sagði Von Trier að hann myndi aldrei segja þetta í Bandaríkjunum enda væri ferill hans þá dauður, en hann væri í Frakklandi og þetta væri því í lagi.