Rapparinn og Grammyverðlaunahafinn RZA sem margir þekkja sem einn liðsmanna hinnar goðsagnakenndu rappsveitar Wu Tang Clan, er maður ekki einhamur. Það er ekki nóg með að hann sé tónlistarmaður og upptökustjóri, heldur er hann nú mættur til leiks með sína fyrstu bíómynd sem hann leikstýrir, skrifar handritið að, semur söguna, leikur aðalhlutverkið og semur alla tónlist í myndinni.
Myndin heitir Man With The Iron Fists, og er Kung Fu slagsmálamynd með Russel Crowe í aðalhlutverkinu. Söguþráðurinn er þessi í stuttu máli: Hópur bardagamanna og leigumorðingja, ásamt breskum hermanni og þrjóti, sem eru í fjársjóðsleit, koma í þorp í Kína á 19. öld, þar sem hógvær járnsmiður snýst til varnar, til að vernda sjálfan sig og aðra þorpsbúa fyrir gestunum. Járnsmiðurinn smíðar m.a. allskonar flókin vopn fyrir íbúa þorpsins, Jungle City, þar á meðal vígalega járnhnefa.
Hér að neðan má sjá atriði úr myndinni og hlusta á þá félaga RZA og hrollvekjuleikstjórann Eli Roth, sem skrifaði handritið með RZA og framleiddi myndina, tala um kvikmyndina. Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum sl. föstudag og var fjórða mest sótta myndin á frumsýningardeginum.