Kvikmyndir.is varð fyrir valinu sem heimasíða vikunnar í Morgunblaðinu, en það val er birt í sunnudagsmogganum hverju sinni. Þar segir m.a. að heimasíðan sé gríðarlega metnaðarfull íslensk vefsíða um kvikmyndir.
Á síðunni sé hægt að finna mikið magn upplýsinga um kvikmyndir, t.d. gagnrýni, fréttir úr kvikmyndaheiminum, hina ýmsu topplista, útgáfu á DVD, atriði úr bíómyndum og upplýsingar um kvikmyndahús ásamt miklu fleiru.
Helsti kostur síðunnar sé hins vegar umræddur gagnagrunnur fyrir íslenskar bíómyndir, en eins og margir vita þá hefur Kvikmyndir.is mjög aðgengilegan gagnagrunn um íslenskar bíómyndir, en hann má nálgast með því að klikka á „Bíómyndir“ hér til hliðar og síðan á „Íslenskar myndir“. Þar hefst listinn á fyrstu íslensku myndinni, Saga Borgarættarinnar frá árinu 1920 en lýkur á Mamma Gógó sem áætlað er að frumsýna árið 2010.
Einnig er Atriði Vikunnar hampað, en það er dagskrárliður hjá okkur sem hefur notið mikilla vinsælda. Í þessum dagskrárlið er sýnt atriði úr misfrægum íslenskum bíómyndum – Morgunblaðið mælir sérstaklega með atriði úr spennumyndinni Skammdegi frá árinu 1985 en þar fer Eggert Þorleifsson á kostum. Atriði vikunnar má nálgast hér vinstra megin á valmynd síðunnar með því að klikka á „Atriði vikunnar„.
Nánar er hægt að lesa greinina á blaðsíðu 69 í sunnudagsmorgunblaðinu.

