Kvikmyndir ÍKS gera það gott á Cannes

Fjögur af átta helstu verðlaunum Cannes hátíðarinnar féllu í skaut kvikmynda sem Íslenska kvikmyndasamsteypan hefur tryggt sér sýningarrétt á fyrir Ísland.

“The Man Without a Past“ eftir Finnann Aki Kaurismaki hlaut “Aðalverðlaun dómnefndar“ (Grand Prize of the Jury) og Katie Outinen hlaut að auki verðlaun sem besta leikkonan fyrir leik sinn í myndinni.

Kaurismaki er einn virtasti leikstjóri Norðurlanda og Íslendingum að góðu kunnur fyrir myndir á borð við “Bohemian Life“ og “Leningrad Cowboys“. “Man Without a Past“ hefur fengið frábæra dóma hjá öllum gagnrýnendum og myndin sögð vera svo fyndin, hlý og mannleg að áhorfendur geti verið vissir um að yfirgefa bíósalinn skælbrosandi og hamingjusamir.

“Sweet Sixteen“ eftir Ken Loach hlaut verðlaun fyrir besta handrit, en Loach hefur unnið með handritshöfundinum Paul Leverty í mörg ár. Hér á ferðinni einstaklega kraftmikil og mannleg saga um skoskan táning í leit að betra lífi. Móðir hans er um það bil að losna úr fangelsi og hann gerir hvað hann getur til að reyna búa þeim betra líf áður en hún losnar. Ráðabrugg hans og vina hans leiða þá inn á glæpagötur og í fangið á óprrúttnum náuungum. Hin 17 ára atvinnuknattspyrnumaður Martin Compston vinnur stórkostlegan leiksigur í frumraun sinni á hvíta tjaldinu sem hinn 15 ára hæfileikaríki en þjakaði táningur og hlaut tilnefningu á Cannes sem besti karlleikari. Hér er um aðgengilegustu mynd Loach að ræða enda fókusinn í þetta skiptið á fólki en ekki pólítík.

“Divine Intervention“ eftir Elia Suleiman hlaut “Verðlaun domnefndar“ (Jury Prize). Myndin fjallar á beittann og gamansaman hátt um deilu Ísraela og Araba. Öll form hefðbundinnar frásagnaraðferða eru brotin og ótroðnar slóðir farnar í stíl og útliti. Næsta víst þykir að þessi mynd eigi eftir að vekja mikla athygli um alla heimsbyggðina á næstu mánuðum, enda vakti hún það mikla athygli á hátíðinni að hún var seld til flestra heldu landa heimsins, þ.á.m. allra Norðurlandanna. Myndin er sjónræn veisla, fyndin, beitt og ólík nokkru sem sést hefur áður.

“Man Without a Past“ verður frumsýnd á Íslandi í nóvember en “Sweet Sixteen“ og “Divine Intervention“ fyrri parts árs 2003.