Hin alíslenska kvikmynd Heiðin er nú á lokavinnslustigi og er verið að leggja
lokahönd á hljóðvinnslu myndarinnar í Bretlandi. Myndin var tekin upp að mestu á Vestfjörðum sl. vor með nokkrum af okkar kunnustu leikurum og nýjum andlitum á hvíta tjaldinu. Einnig kemur fram Hafdís Huld Þrastardóttir sem tekur lagið en í myndinn er jafnframt tónlist af nýjustu plötu Múm.
Myndin, sem gerist á einum kosningadegi, segir frá Albert sem heimsækir sveitina sína
eftir langa fjarveru í námi og hvernig viðtökur hann fær á æskustöðvunum. Faðir Alberts, Emil, er þennan sama dag beðinn um að fara með kjörkassa útá flugvöll, en hann missir af vélinni.
Myndinni hefur verið líkt við Broken Flowers og Little Miss Sunshine af enskumælandi
samferðamönnum myndarinnar og beðið með eftirvæntingu eftir þeim degi að sýna almenningi afraksturinn.
Þegar hefur verið gengið frá samkomulagi um sölu myndarinnar á Norðurlöndum og á
Bretlandi. Áætlað er að frumsýna myndina í mars 2008 á Íslandi.
Nú þegar er komin stikla úr myndinni hér á kvikmyndir.is og nánari upplýsingar eru væntanlegar.

