Kvikmynd um Max Payne?

Tölvuleikurinn um Max Payne, sem er reyndar þannig að hann virðist helst hafa verið gerður eftir kvikmynd, mun nú líklega vera gerður að kvikmynd, því þannig er jú Hollywood. Dimension Films hafa lýst yfir áhuga á gerð myndarinnar, og hafa fengið til liðs við sig mann að nafni Shawn Ryan. Hann hefur unnið mikla og góða vinnu við sjónvarpsþætti sem heita The Shield og þykja góðir. Hann hefur skrifað undir samning þess efnis að hann muni þróa verkefnið, en enn er ekki ljóst hvort hann muni síðan á endanum skrifa handritið, leikstýra eða framleiða myndina nema hann geri allt þrennt. Söguþráður leiksins gengur út á það að lögreglumaðurinn Max Payne er að reyna að hreinsa nafn sitt eftir að morði hefur verið klínt á hann. Á sama tíma er hann að reyna að hefna dauða konu sinnar og dóttur.