Kvenkyns Expendables á leiðinni

weaveralienNú hefur fjöldinn allur af gömlum og nýjum karlkyns hasarhetjum fengið að skjóta og slást í tveimur testosterónudrifnum myndum og sú þriðja er á leiðinni, það er ekkert skrítið miðað við velgengnina en The Expendables 2 er núna á toppnum í Bandaríkjunum aðra vikuna í röð. Fréttaveitur vestanhafs segja kvenkyns útgáfu af Expendables vera í bígerð og stór nöfn munu vera í viðræðum, sú mynd yrði ekkert tengd Expendables vörumerkinu samt sem áður þar sem þetta er annað framleiðslufyrirtæki sem hyggur á gerð þessarar myndar. Hins vegar hefur leikstjóri EX2, Simon West, sagt að hann myndi vilja sjá kvenkyns Expendables teymi í þriðju myndinni þannig að það gæti verið um smá samkeppni að ræða þarna á milli. Hann myndi vilja fá Angelinu Jolie, Cameron Diaz, Millu Jovovich, Helen Mirren og Jamie Lee Curtis.

rodriguezPersónulega myndi ég vilja sjá nöfn á borð við Angelinu Jolie að sjálfsögðu, Maggie Q (Nikita og Mission Impossible III), Ginu Carano (Haywire), Sigourney Weaver (Alien), Kate Beckinsale (Underworld), Söruh Michelle Gellar (Buffy the Vampire Slayer),  Umu Thurman (Kill Bill), Lindu Hamilton (Terminator), Yvonne Strahovski (Chuck og Killer Elite) , Jennifer Garner (Alias) og Michelle Rodriguez (The Fast and the Furious). Ég gæti haldið áfram en þið náið þessu, það er úr nægu að velja.

 

Hvaða skvísur viljið þið sjá í kvenkyns Expendables? Viljið þið fá kvenkyns Expendables yfir höfuð?