Á tíunda áratug síðustu aldar vöknuðu krakkar um allan heim spenntir á laugardagsmorgnum og horfðu á hina geysivinsælu Power Rangers ofurkrakka. Í mars á næsta ári er von á bíómynd um Power Rangers, og fyrsta stiklan fyrir myndina kom út í dag í tengslum við pallborðsumræður Lionsgate framleiðslufyrirtækisins á Comic Con afþreyingarhátíðinni sem nú stendur yfir í New York.
Eins og sést í stiklunni þá fjallar myndin um fjóra unglinga sem er strítt í skóla. Þau fara eitthvað út fyrir bæinn og lenda í sprengingu sem gefur þeim ofurkrafta. Í kjölfarið þá reyna þau að laga sig að þessum nýja veruleika, og undir lok stiklunnar, og eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd, þá er eins og Power Rangers búningarnir litríku vaxi utan á þau! – en reyndar sjást þau ekki í búningunum sjálfum í stiklunni.
Helstu persónur myndarinnar eru Rauði rangerinn Jason, sem Dacre Montgomery leikur, Bleiki rangerinn Kimberly, sem Naomi Scott leikur, Blái rangerinn Billy sem RJ Cyler leikur, Svarti rangerinn Zack, sem Ludi Lin leikur, og Guli rangerinn Trini sem Becky G. leikur.
Einnig fara Bryan Cranston og Elizabeth Banks með stór hlutverk.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: