Kraftmestu skósveinar til þessa

Teiknimyndin Minions: The Rise of Gru, eða Skósveinarnir: Gru rís upp, eins og myndin heitir í íslenskri þýðingu, og komin er í bíó hér á landi, fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum í breska dagblaðinu The Telegraph í dag.

Segir gagnrýnandi blaðsins, Robbie Collin, að myndin sé sú kraftmesta til þessa.

Teiknimyndin er sú fimmta í seríunni en hinar eru Aulinn ég, Aulinn ég 2, Skósveinarnir og Aulinn ég 3.

Í gagnrýni Collin segir að hver einasti rammi í myndinni sé teiknaður með hraða og áhrif í huga og hvert einasta gramm af óþarfri söguframvindu hafi verið fjarlægt miskunnarlaust. Því hefur Skósveinaserían aldrei verið nær andlegum forverum sínum í hraða og stíl: hinum stuttu Looney Tunes gullaldarteiknimyndum frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.

Fimm mínútur af kung fu

Eins og segir í dóminum sjáum við Skósveinana reyna sig við hitt og þetta í myndinni. Við fáum fimm mínútur af þeim að læra Kung fu bardagatækni, fimm mínútur af þeim að reyna að fljúga farþegaflugvél, fimm mínútur af þeim að halda jarðarför osfrv. osfrv.

Myndin er frábærlega unnin tæknilega segir The Telegraph. Litirnir og smáatriðin heilla og Skósveinarnir sjálfir hafa aldrei verið meira skoppandi fjörugir – sem styður vel við hina hröðu og skemmtilegu grínframvindu.

Fjallar um uppvaxtarárin

Myndin fjallar um uppvaxtarár Gru, sem Steve Carell ( The Office ) talar fyrir, sem er greinilega ekkert alltof mikið að stressa sig á því að sögupersónan er aðeins 12 ára gömul.

Gru situr í herberginu sínu, á meðan jóga-óð móðir hans, sem Julie Andrews leikur, teygir sig og beygir í herberginu við hliðina.

Gru elskar The Vicious 6, sem er aðal gengið í bænum. Þegar staða losnar í grúppunni sækir Gru um plássið. Skyndilega er hann kominn með töfraverndargrip í hendurnar, sem Skósveinarnir týna þó fljótlega fyrir honum.

Og nú þarf að finna gripinn. Leitin berst út úr úthverfunum og til San Francisco og við sögu kemur allskonar fatastíll og græjur og dót þess tíma sem sagan gerist á, þ.e. áttunda áratugar síðustu aldar.

Tilvísanir í eldri myndir

Nokkrar tilvísanir eru í fyrri myndir eins og The Telegraph bendir á. Þar á meðal er Russell Brand í gestahlutverki fyrir Doctor Nefario sem síðast kom við sögu árið 2015. Telegraph segir að yngri áhorfendur muni mjög líklega kunna að meta tækifærið að geta tengt myndirnar í seríunni saman í gegnum persónur eins og Nefario.

Stórskotahríð

Þegar allt kemur til alls, segir The Telegraph, þá er öll heila myndin ein risa stórskotahríð af kátínu og gleði og þó að einn brandari klikki er alltaf stutt í þann næsta.