Kim Ki-Duk látinn vegna Covid-19

Suður-Kóreski kvikmyndagerðarmaðurinn Kim Ki-Duk er látinn, 59 ára að aldri. Hann lést á sjúkrahúsi í Lettlandi vegna COVID-19 og hafði hann verið að glíma við alvarleg einkenni. Hann hafði verið í miðjum undirbúningi á kvikmynd þegar veikindin hófust.

Kim Ki-Duk var einn frægasti leikstjóri Suður-Kóreu; afkastamikill og hafði margsinnis unnið til verðlauna fyrir kvikmyndir sínar. Ki-Duk var þó líka umdeildur maður og á tíðum gagnrýndur fyrir dýraníð og kvenfyrirlitningu í myndum hans.

Hann leikstýrði yfir 20 kvikmyndum í fullri lengd og var þekktur fyrir listrænan, súrrealískan stíl. Á meðal þeirra kvikmynda sem hann gerði má nefna Samaria, The Isle, 3-Iron, Arirang, Spring, Summer, Fall, Winter… and Spring, Pietá, Moebius og Dissolve.