Kidman verður drykkfeld kvikmyndastjarna næsta haust

Aðdáendur Nicole Kidman ættu nú að sperra eyrun ( eða augun ) því leikkonan hefur boðað komu sína á leiksvið á Broadway í New York næsta haust, þ.e. haustið 2011.
Kidman ætlar að leika í leikriti eftir Tennessee Williams, Sweet Bird of Youth, í leikstjórn David Cromer, að því er talsmaður uppsetningarinnar sagði við fjölmiðla.

Kidman lék síðast á sviði á Broadway í leikriti David Hare, The Blue Room, árið 1998-99, en það var frumraun hennar á leiksviði á Broadway. Sú sýning fékk misjafna dóma gagnrýnenda, en aðsókn var glimrandi góð, enda Kidman vinsæl.

Í Sweet Bird mun Kidman fara með hlutverk Alexandera Del Lago, drykkfelldrar kvikmyndastjörnu sem má muna sinn fífil fegri, sem hangir með flagaranum Chance Wayne. Ekkert er búið að gefa út hver leikur Chance.
Upprunalega uppsetning leikritsins á Broadway var árið 1959 með Geraldine Page sem Alexandra og Paul Newman sem Chance, en hann lék einnig í kvikmyndaútgáfu verksins.