Todd Phillips, leikstjóri Joker, sem kemur í bíó 4. október nk., segist ekki hafa áhyggjur af samkeppninni við Marvel ofurhetjufyrirtækið, enda hafi það aldrei verið ætlun hans að keppa beint við þá.
Hvað sem kemur til með að gerast í miðasölunni þegar Joker verður tekin til sýninga, eða hvort að myndin sé mögulegur kandidat á verðlaunahátíðum næsta árs, þá er eitt víst, að myndin þykir mjög ólík öðrum kvikmyndum sem gerðar hafa verið eftir teiknimyndasögum.
Myndin er með báða fætur í raunveruleikanum, eins og segir á flickeringmyth.com vefnum, og er sögð miklu meiri karakterstúdía, í ætt við Taxi Driver, en nokkuð annað. Það er megin ástæðan fyrir ofangreindum ummælum Philips sem hann lét falla á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, sem nú stendur sem hæst.
“Ég veit ekki með samkeppnina við Marvel og það allt. Ég hef aldrei áður verið í teiknimyndasagna/ofurhetjuheiminum. Þegar við fengum þessa hugmynd, þá pældum við mikið í þessari tegund mynda, og að nálgast hana á annan hátt.”
Phillips bætti við að hann hafi viljað gera eitthvað “allt öðruvísi en hefði verið gert í fyrri ofurhetjukvikmyndum.”
Spennandi nálgun
Spurður um hvaða áhrif myndin gæti haft á þessa tegund kvikmynda í framtíðinni, sagðist hann ekki vita hvaða áhrif hún hefði á aðra kvikmyndagerðarmenn. “Mér finnst ofurhetjukvikmyndirnar hafa heppnast vel, og þær þurfa ekkert endilega að breytast neitt. Okkur fannst bara að þetta gæti verið spennandi nálgun. Ég veit ekki hvað þetta þýðir fyrir aðdáendur DC Comics eða Marvel.”
Joker kemur í bíó sem fyrr sagði 4. október og í aðalhlutverkinu er Joaquin Phoenix (The Sisters Brothers) ásamt Robert De Niro (Goodfellas), Zazie Beetz (Deadpool 2), Bill Camp (Red Sparrow), Frances Conroy (American Horror Story), Brett Cullen (Narcos), Glenn Fleshler (Billions), Douglas Hodge (Penny Dreadful), Marc Maron (GLOW), Josh Pais (Motherless Brooklyn), Shea Whigham (Kong: Skull Island), Douglas Hodge (Robin Hood) og Dante Pereira-Olson (You Were Never Really Here).
Kíktu á Joker stikluna hér fyrir neðan, en undir hljómar tónlist Veigars Margeirssonar: