DJANGO (1966)
Vestraformið – og þá sérstaklega ítalski spaghettívestrinn – hefur löngum staðið nærri hjarta leikstjórans Quentin Tarantinos. Hann hefur oft lýst því yfir að The Good, The Bad and the Ugly (1966) eftir Sergio Leone sé líklega uppáhaldsmyndin hans og áhrif formsins hafa seitlað inn í kvikmyndir Tarantinos á ýmsa vegu, þó líklega aldrei jafnskýrt og í síðari hluta Kill Bill tvíeykisins.
Því er ekki að undra að Tarantino hafi loks tekið ást sína á vestranum alla leið og komið með sitt eigið framlag: Django Unchained (2012) er væntanleg á íslensk bíótjöld 18. janúar næstkomandi. Þar skrifar Tarantino sig inn í hinar fjölmörgu hefðir gamla spaghettívestrans, en ryður einnig nýjar brautir í annars útþynntum geira. Myndin ku t.a.m. vera fyrsti vestrinn þar sem aðalhetjan er blökkumaður og enn fremur fer leikstjórinn ótroðnar slóðir með því að staðsetja vestrann innan um þrælahald og kynþáttahroka í suðurríkjum Bandaríkjanna á nítjándu öld, þar sem ofbeldi gegn undirokuðum þrælum er sýnt á hryllilega opinskáan hátt.
Spennandi verður að sjá hvernig Tarantino mun kljást við vestraformið – myndin hefur þegar vakið afar jákvæð viðbrögð vestanhafs – en það verður nægur tími til að ræða Django Unchained síðar. Ég vil heldur nýta þetta litla pláss í að minnast annars vestraleikstjóra, Sergio Corbuccis – “hinn Sergio-inn”, sem mun færri kannast við heldur en starfsbróður hans, Sergio Leone. Tarantino hefur nefnilega lýst því yfir að Django Unchained sé ekki aðeins óður til spaghettívestrans, heldur sérstaklega til Corbuccis. Tarantino er gríðarmikill aðdáandi og hefur nýverið unnið að heilli bók þar sem hann greinir og grannskoðar verk meistarans (ég veit þó ekki hvenær von er á henni í útgáfu). Af því tilefni langar mig að rifja upp nokkrar helstu myndir Sergio Corbuccis á næstu dögum og vikum, sem nokkurs konar upphitun og niðurtalningu að frumsýningardegi Django Unchained hér á landi. Þetta innslag er því það fyrsta af þremur áætluðum, en það síðasta mun birtast 18. janúar.
Sergio Corbucci hafði leikstýrt myndum síðan snemma á sjötta áratugnum og gerði nokkra vestra áður en Django leit loks dagsins ljós árið 1966. Fyrstu vestrar Corbuccis voru að vissu leyti vísir að því sem koma skyldi, en leikstjórinn fékk ekki fullt frelsi til að láta ljós sitt skína fyrr en með Django. Þá teygði hann líka duglega á forminu og skildi eftir sig vestra sem markaði straumhvörf innan geirans. Django er algjört skylduáhorf fyrir alla áhugamenn um vestra, því að Corbucci sannar með látum að Leone var ekki sá eini sem gat snúið upp á þræði og leikið sér að hefðum með frumlegum og fjölbreytilegum myndum. Ítalskir spaghettívestrar voru fjöldaframleiddir í massavís á þessum tíma, sérstaklega eftir vinsældir A Fistful of Dollars (1964) og For A Few Dollars More (1965), og urðu strax klisjukenndir og staglsamir. Flestar eru þessar myndir gleymdar nú á dögum og því ekki að furða að myndir Leone hafi lifað af sem glitrandi gimsteinar innan um einsleitt grjótið. En Corbucci er að vissu leyti myrkur tvíburi Leone, skuggahliðin á þeim mikla meistara, og verðskuldar meiri athygli og áhorf. Flestir unnendur spaghettísvestra byrja með því að verða ástfangnir af myndum Leones, sem eru auðvitað mikil meistaraverk, og eftir það ættu myndir Corbuccis að vera næsta skref. Sergio-arnir tveir ríma í raun ofurfallega hvor við annan, nokkurs konar jing og jang sem saman myndar kjarnann í spaghettívestrasprengjunni á sjöunda áratugnum. Leone er þekktur fyrir háfleygar vestra-óperur, víðáttubrjálæði í bland við trylltar nærmyndir, uppstillta ramma og epíska tónlist sem færir frásagnir vestrans í næstum goðsögulegan búning. Corbucci er nánast algjör andstæða: hann dregur hið háfleyga aftur ofan í svaðið og forina, en myndir hans eru ofbeldisfyllri, blóðugri og hrottalegri, og sumar þeirra – sérstaklega Il Grand Silenzio, sem ég mun fjalla nánar um síðar – ganga mjög langt í að afbyggja formið og gera góðlátlegt grín að því.
Upphafstitlar Django eru ógleymanlegir, ljóðrænt og drungalegt upphaf á vestra sem á engan sinn líka. Dularfullur, dökklæddur maður dregur líkkistu á eftir sér í gegnum aurugt landslag. Django er drullug kvikmynd, skítug og suddaleg, með vott af gotneskri hryllingsmyndahefð í bland við kunnuglegt form bandarískra vestrans. Sólríkar eyðimerkur umbreytast í leðju og grámyglu og erfitt er að henda reiður á hver er góður eða vondur, hetja eða illmenni, hvað er réttlæti, hvað er kvalalosti, og svo framvegis. Tveir hópar eiga í hatrömmu stríði sín á milli – gengi mexíkóskra uppreisnarsinna og grimmir stríðsmenn Ku Klux Klan – og Django lendir á milli þeirra. Inn í þetta blandast enn fremur klassískur hefndarþráður aðalpersónunnar og hellingur af ruddalegu ofbeldi sem áhorfendur á sínum tíma höfðu ekki kynnst áður og tóku, að því er virðist, fagnandi hendi. Vinsældir Django voru gríðarmiklar og líkt og með dollaramyndir Leones kom út ógrynni af eftirhermumyndum sem margar hverjar notuðu nafnið „Django“ í titlinum til þess eins að græða á frægð og frama fyrstu myndarinnar (þótt þær tengdust henni ekki neitt). Django gerði enn fremur aðalleikarann Franco Nero að stjörnu, en hann átti eftir að leika í mörgum merkilegum myndum á næstu árum, bæði innan og utan vestrageirans (þ.á m. í magnaðri hryllingsmynd Elio Petris, A Quiet Place in the Country (1969), sem var sýnd á RIFF fyrir nokkru). Þess ber að geta að Nero leikur smáhlutverk í Django Unchained (sjá stillu ofar á síðunni, þar sem hann situr á barnum við hlið Jamie Foxx) sem er væntanlega aðeins einn af fjölmörgum virðingarvottum Tarantinos til hetju sinnar sem finna má í myndinni.
Ég vil ekki kjafta mikið meira frá söguþræði Django og læt það frekar lesendum eftir að hafa uppi á eintaki og taka frá eina kvöldstund til að kynnast þessum merkilega vestra – en ég vil engu að síður minnast á eitt frægasta atriði myndarinnar sem dæmi um hvernig Corbucci nær að nálgast kunnuglega vestraklisju á nýstárlegan og frumlegan hátt. Þegar rúmur hálftími er liðinn af myndinni stendur hetjan okkar andspænis gengi óvinarins sem eru margfalt fleiri að tölu en hann. Senan er kunnugleg með meiru: hér mun hin óumflýjanlega hólmganga eiga sér stað, þar sem hetjan mun að öllum líkindum skjóta alla niður með skammhleypunni og hvert einasta skot hitta beint í mark. Að lokum liggja allir í valnum nema Django. Áhorfendur búast við þessu vegna þess að þeir hafa séð atriðið mörgum sinnum áður í óteljandi vestrum. Þetta veit Corbucci vel og sannarlega klikkar hann ekki á að færa okkur atriðið, en hann fer allt aðra leið að senunni en nokkur gæti átt von á. Corbucci gerir óbeint grín að klisjunni með því að ýkja og sprengja hefðbundinn byssubardaga í loft upp: þegar Django opnar loks líkkistuna sem hann hefur dröslað á eftir sér alla myndina kemur í ljós risavaxin hríðskotabyssa. Ég fer ekki út í nánari smáatriði, en óhætt er að segja að hinn rómantíski byssubrandur umbreytist í furðulega skopstælingu af sjálfum sér (líkt og sjá má í stillunni hér að ofan). Engu að síður er atriðið svo listilega vel sett á svið – og af fullri alvöru – að það verður samtímis gráglettið og brjálæðislega töff, nokkurs konar sjálfsmeðvituð framsetning sem vinnur samtímis úr og bætir við formfastar hefðir á kunnuglegan jafnt sem nýstárlegan hátt. Með öðrum orðum er þetta póstmódernískur byssubardagi löngu áður en slíkt komst í tísku – og því ekki skrítið að Tarantino líti til Corbucci sem lærimeistara.