Karate Kid skaut A-Team ref fyrir rass

Endurgerðin af Karate Kid fór rakleiðis á topp bandaríska aðsóknarlistans um helgina, og hafði þar betur en A-Team sem einnig var frumsýnd úti um helgina.

Sjálfan karatestrákinn, eða Karate Kid, leikur Jaden Smith, sonur rapparans og kvikmyndaleikarans Will Smith. Kennara stráksins leikur gamli karaterefurinn Jackie Chan. Myndin þénaði 56 milljónir Bandaríkjadala á þremur fyrstu dögunum,samkvæmt dreifingaraðilanum Columbia Pictures.

Myndin kostaði 40 milljónir dala í framleiðslu og var tekin upp í Kína. Myndin hittir beint í mark hjá fólki undir 25 ára, en fólk á því aldursbili var 56% gesta.

Bæði Karate Kid og A-Team voru talin eiga séns á toppsætinu, en strákurinn hafði betur.

A-Team tók inn 26 milljónir Bandaríkjadala, en 20th Century Fox sem framleiddi myndina, hafði búist við að ræman myndi græða á sterku umtali, þó svo að gagnrýnendur hafi verið heldur neikvæðir.