Hollywood leikarinn Michael B. Jordan, þekktur fyrir myndir eins og Creed og Black Panther, hefur tekið að sér hlutverk persónunnar John Clark úr bókum spennusagnahöfundarins Tom Clancy ( The Hunt for Red October, The Sum of All Fears ofl. ) , en hugmyndin er að búa til röð kvikmynda um persónuna.
Leikarinn, sem er 31 árs gamall, er sagður ætla að leika persónuna í tveimur kvikmyndum til að byrja með, en í fyrri myndinni, sem byggð verður á skáldsögunni Without Remorse, mun verða sögð svokölluð “upprunasaga” persónunnar. Framhaldsmyndin mun svo verða gerð eftir skáldsögunni Rainbow Six.
Michael sjálfur kemur að framleiðslu myndarinnar ásamt Akiva Goldsman, Josh Appelbaum og Andre Nemec, samkvæmt heimildum Variety, en þar er einnig sagt frá því að Paramount kvikmyndaframleiðandinn fundi nú stíft með mögulegum handritshöfundum og leikstjórum.
Myndverið hefur eytt mörgum árum í að tryggja sér kvikmyndaréttinn að sögunum, en áður höfðu nöfn leikarans Ryan Reynolds og leikstjórans Chris McQuarrie, verið nefnd í tengslum við verkefnið.
Af öðrum verkefnum Michael er það að frétta, að hann skrifaði nýlega undir samning um framleiðslu Seinni heimsstyrjaldarmyndarinnar The Liberators.
Þá hefur leikarinn sagt að hann hafi áhuga á kvikmyndaframleiðslu í framtíðinni, en hann á og rekur framleiðslufyrirtækið Outlier Society. “Fyrir mér er það að framleiða, skapa tækifæri og segja sögur, eitthvað sem ég hef alltaf heillast af. Það er mér mjög mikilvægt að eiga mitt eigið framleiðslufyrirtæki, til að geta hrint þessu í framkvæmd, segir Jordan m.a.