Jonze og villtir hlutir

Leikstjórinn snjalli Spike Jonze hefur boðist til að leikstýra barnabókinni Where The Wild Things Are sem skrifuð var af Maurice Sendak og fjallar um ungan dreng með gríðarlegt ímyndunarafl sem skapar í huga sér heim þar sem hann er konungur yfir ýmsum furðuskepnum. Universal kvikmyndaverið er búið að reyna að gera kvikmynd eftir þessari bók síðan á miðjum áttunda áratugnum án árangurs. Nú síðast var leikarinn og framleiðandinn Tom Hanks búinn að bjóðast til að framleiða myndina fyrir þá sem tölvuteiknimynd og ætlaði þá leikstjórinn Eric Goldberg (Fantasia 2000) að sjá um verkefnið. Hann hætti síðan við, og Universal hóf viðræður við Jonze. Jonze leist vel á, en vildi samt ekki gera teiknimynd heldur vildi hreinlega kvikmynda verkið. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort þetta verður næsta verkefni Jonze, eða hvort það verður ónefnda hryllingsmyndin sem hann er að skrifa með Charlie Kaufman fyrir Sony kvikmyndaverið.