Í kringum hátíðirnar í Bandaríkjunum flykkjast jólasveinar í verslunarmiðstöðvar til þess að gleðja börn sem vilja bera þá augum. Jólasveinarnir sitja oftar en ekki í hásætum í miðjum verslanarmiðstöðvunum og leyfa gestum og gangandi að taka myndir af sér, svo fá börnin að sitja í kjöltu þeirra og segja hvað þau vilja fá í jólagjöf.
Heimildarmyndin I Am Santa Claus er í framleiðslu og fjallar um menn sem hafa það að atvinnu að klæðast sem jólasveinar einu sinni á ári. Myndin fer þó mun ítarlegra í tilvist mannanna þegar þeir eru ekki klæddir í hlutverkið, heldur bara venjulegir menn með hvítt langt skegg og stóra vömb.
Myndin er sjálfstæð framleiðsla og er fjármögnuð í gegnum fjársöfnunarvefinn Kickstarter. Myndin er leikstýrð af Tommy Avallone, sem áður hefur gert gamanmynd um menn sem eru klókir í því að næla sér í fría drykki.
Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni.

