Jólapartý aldarinnar – Ný stikla úr Office Christmas Party

Jólapartý á skrifstofunni eru algengt fyrirbæri í Bandaríkjunum á aðventunni. Þar koma starfsmenn saman, fá sér eggjapúns, klæða sig í hallærislegar jólapeysur, og gera sér glaðan dag. Um þetta fjallar ný kvikmynd sem kemur í bíó hér á landi laust eftir næstu mánaðarmót, Office Christmas Party, en ný stikla hefur nú verið birt úr myndinni.

office-christmas-party

Myndin er eftir sömu menn og gerðu gamanmyndina Blades of Glory, þá  Josh Gordon og Will Speck.

Í myndinni leikur Deadpool leikarinn T.J. Miller deildarstjórann Clay Vanstone. Viðskiptin ganga eitthvað illa og hin miskunnarlausa og grimma systir hans Carol, sem Jennifer Aniston leikur, ætlar sér að skemma jólin fyrir öllum með því að loka skrifstofu bróður síns um Jólin, nema eitthvað mikið breytist.

Clay og samstarfsmenn hans, þar á meðal Jason Bateman, sem leikur Josh, Ghostbusters leikkonan Kate McKinnon, sem leikur Mary, og Olivia Munn sem leikur Tracey,  sjá aðeins einn möguleika í stöðunni: að næla í stóran nýjan viðskiptavin, Walter, sem Courntey B. Vance leikur, eða að gefast upp og leita sér að nýrri vinnu. Þau ákveða að halda risastórt jólapartý til að lokka Walter í viðskipti, en auðvitað gengur allt á afturfótunum þegar á hólminn er komið og leikar fara að æsast…

 

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: