Eins og fyrsta stiklan hafi ekki verið nógu góð jólagjöf. Peter Jackson og félagar hafa sent frá sér fimmta vídeobloggið af setti Hobbitans, og það fyrsta síðan að útitökur hófust nú í haust (það var vor í Nýja Sjálandi samt). Myndbandið sýnir okkur enn á ný bakvið tjöldin á hinni gríðarlegu bakvinnu sem framleiðsla af þessu tagi þarfnast, og nú hversu mikið mál það er að fara með 500 manna tökulið út í sveit. Þá er sagt frá endurbyggingu Hobbitons, sem nú var byggt úr varanlegum efnum og mun standa eftir um ókomin ár fyrir gesti og gangandi. Hér er myndbandið:
Persónulega er ég alveg í skýjunum með þessi myndbönd sem Peter Jackson og félagar hafa sent aðdáendum myndanna síðasta tæpa árið, og þetta er ekkert síðra. Allt sem styttir biðina að næstu jólum er vel þegið. Ef þú átt eftir að sjá hin fjögur myndböndin, finnurðu þau á facebook síðu Peter Jackson.