Johnson tekur Red Notice í „búbblu“ sóttkví

Einn vinsælasti og eftirsóttasti kvikmyndaleikari í heimi, Dwayne „The Rock“ Johnson, hefur ekki farið varhluta af vandræðum sem skapast hafa vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hefur nú tilkynnt að framleiðslu á kvikmyndinni Red Notice, sem hann er að búa til fyrir Netflix streymisrisann, verði haldið áfram í „sóttkvíar-búbblu“ í næsta mánuði.

Framleiðslufyrirtæki leikarans, Seven Bucks Production, og Netflix, vinna nú að því að búa til þessa búbblu, sem má lýsa sem frísvæði fyrir tökufólk og leikara, eins og Johnson útskýrir í myndbandsskilaboðum á Instagramreikningi sínum:

https://www.instagram.com/tv/CDZ1itRldAR/?utm_source=ig_web_copy_link

Síðastliðinn fimmtudag hófst aftur keppni í bandaríska NBA körfuboltanum, en búið var til lokað umhverfi fyrir liðin í Orlando, sem kallað er „búbblan“. Þar æfa leikmenn, búa, og spila alla leikina.

Johnson segir að hann fái góð ráð frá NBA um útfærslu sinnar búbblu.

„Þau hafa verið betri en engin, í að deila með okkur reynslu sinni af búbblunni,“ segir Johnson. „Og við getum nú nýtt okkur það í búbblunni okkar.“

Johnson segir einnig að þetta verði ekki auðvelt. „Það er enginn leiðarvísir til. Við erum að prófa okkur áfram, alla leið,“ segir leikarinn.