Eftir að staðfest var að leikstjórinn JJ Abrams myndi leikstýra næstu Star Wars mynd, þeirri sjöundu í röðinni, og þeirri fyrstu eftir að Disney keypti LucasFilm, hafa menn velt fyrir sér hverju megi búast við hvað myndina varðar.
Kvikmyndaritið Empire spurði Abrams einmitt út í þetta í nýju viðtali sem tekið var við leikstjórann á skrifstofu hans hjá Bad Robot kvikmyndafyrirtækinu í Los Angeles.
„Ég veit ekkert um það þar sem við erum rétt að byrja. Þannig að þetta er frábær spurning sem ég vonast til að geta haft svar við þegar ég veit eitthvað meira. Það er greinilega meira af spurningum núna en svörum, en fyrir mér er þetta tvennt ekki svo ólíkt. Þó að ég komi að báðu frá ólíkum hliðum, þá er staðurinn þar sem spurningar og svör mætast mjög spennandi. Og jafnvel þó að ég hafi aldrei verið sérstakur Star Trek aðdáandi, þá fannst mér að það væri einhver útgáfa af því sem gæti gert mig spenntan, sem mér myndi finnast töff, sem myndi vera rétt, ég myndi í raun vilja sjá það gerast.
„En hvernig við myndum ná á þann stað, hvaða ákvarðanir þyrfti að taka, hvað yrði í þessu – allir þessir hlutir sem ég vissi að þyrfti að finna út úr, en það var allt byggt á þessari óútskýranlegu tilfinningu fyrir einhverju sem gæti orðið. Ég hef þessa sömu tilfinningu gagnvart Star Wars. Mér finnst ég skynja hungur í eitthvað sem mig langar að sjá aftur og það er ótrúlega spennandi staður að vera á í byrjun verkefnis. Kvikmyndirnar tvær gætu samt ekki verið ólíkari, en sú tilfinning að hér sé eitthvað stórkostlegt á ferðinni, er það sem þær eiga sameiginlegt.“
JJ Abrams hafnaði því að taka að sér Star Wars síðasta sumar, en honum snerist hugur og tók að sér verkefnið að lokum. „Fyrstu viðbrögð mín voru að ég var þarna á fullu að vinna að Star Trek mynd og mér fannst ég ekki einu sinni geta íhugað þetta. En síðan leið tíminn og þegar ég var að mestu búinn með Star Trek þá ræddi ég við Kathy Kennedy ( framleiðandi hjá Amblin Entertainment kvikmyndafyrirtækinu ) og ég fór að geta rætt þetta af meiri alvöru. Ég fór heim til konunnar minnar og sagði að ég hefði átt í mjög áhugaverðu samtali við Kathy og þannig byrjaði þetta.
„Ég vil líka taka það fram að Steven [Spielberg] var mjög hvetjandi varðandi Star Wars. Það er fyndið af því að ég talaði við hann um það og það kom í ljós að hann vissi allt um það sem var í gangi.“