Þeir aðdáendur gamanmyndinnar The Big Lebowski sem hefðu viljað sá meira til keilukúlusleikjandi kynferðisbrotamannsins Jesus Quintana hafa tilefni til að gleðjast, því tökur á hliðarmynd byggðri á persónunni sérstæðu eru hafnar í New York.
Myndin nefnist Going Places og segir sögu Quintana en Coen-bræður, sem stóðu á bak við The Big Lebowski, koma hvergi nærri í þetta sinn.
John Turturro fer sem fyrr með hlutverk Quintana. Hann leikstýrir einnig og skrifar handritið sem er byggt á myndinni Les Valseuses frá árinu 1974 í leikstjórn Frakkans Bertrand Blier. Sú mynd fjallar um þrjá smákrimma og er grínið ekki langt undan.
Aðrir helstu leikarar eru Bobby Cannavale, Audrey Tautou, Susan Sarandon og Sonia Braga.
Turturro hefur lengi haft áhuga á að leika Jesus Quintana á nýjan leik en hann hefur gefið í skyn að lagaflækjur hafi truflað áform hans.