Hin ógleymanlega persóna úr Coen bræðra myndinni The Big Lebowski, Jesus Quintana, er á leiðinni á hvíta tjaldið á ný í myndinni Going Places. Það er John Turturro sem fer með hlutverk Jesus.
Fyrsta ljósmyndin úr myndinni hefur nú verið birt, en þar sést Jesus að sjálfsögðu á heimavelli – í keilusalnum, þar sem hann lét ljós sitt skína svo eftirminnilega í The Big Lebowski.
Coen bræður koma ekki við sögu í þessari einskonar hliðar-framhaldsmynd The Big Lebowski, heldur er það Turturro sjálfur sem heldur um stjórnartaumana, auk þess að leika Jesus á ný.
Myndin er bæði endurgerð kynlífs-gamanmyndar Bertrand Blier, Les Valseuses frá árinu 1974, sem og framhald á sögunni í The Big Lebowski, og segir af nýjum ævintýrum kynferðisglæpamannsins og keiluspilarans Jesus Quintana.
Hinn munúðarfulli spænskættaði Jesus, er nú í slagtogi við Petey, sem Bobby Cannavale leikur, en þeir keppa um hver verði fyrstur til að veita konu, sem Audrey Tautou leikur, fyrstu fullnæginguna.
Susan Sarandon er einnig á meðal leikenda, og leikur glæpakvendi sem er nýsloppin úr fangelsi og hjálpar þeim félögum í tilraunum sínum. Allt endar þetta með því að þríeykið lendir á flótta undan réttvísinni, samfélaginu og frá hárgreiðslumanni sem er á hælunum á þeim.
Myndin kemur líklega í bíó á næsta ári.
Sjáðu fyrstu ljósmyndina úr myndinni hér fyrir neðan.