Jessica Chastain hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn undanfarna mánuði. Mest áberandi var hlutverk eiginkonu Brad Pitt í mynd Terence Malick, The Tree of Life, en auk hennar hafa 5 aðrar myndir með Chastain í stórum hlutverkum komið út á árinu; The Debt (ásamt Sam Worhtington), Wilde Salome (Eftir Al Pacino), Coriolanus (Eftir Ralph Fiennes), Take Shelter og The Help (Með Emma Stone!). Misstórar myndir, en gengu allar nokkuð vel.
Nú var að bætast nýtt verkefni á dagskránna hjá henni, en það er Scifi myndin Horizons (sem áður hét Oblivion), næsta mynd Joseph Kosinski leikstjóra Tron: Legacy. Í aðalhlutverki verður Tom Cruise. Myndin gerist á jörðinni í framtíð þar sem yfirborðið er óbyggilegt mönnum, og menn búa í borgum ofar skýjunum. Cruise verður vélmennaviðgerðarmaður sem fer niður á yfirborðið og finnur dularfulla konu í brotlentu hylki þar. Úr verður svaka hasar.
Giskað er á að Chastain verði dularfulla konan, en hún gæti allt eins leikið eiginkonu Tom Cruise. Disney ætlaði upphaflega að gera myndina, en lét hana fara eftir að Tron: Legacy svekkti þá í miðasölunni. Universal tók við taumunum, sennilega til að hafa einhverja mynd með Tom Cruise á dagskránni eftir að þeir hættu við að gera At the Mountains of Madness. Myndin kemur út sumarið 2013.