Hip Hop tónlistarmaðurinn og einn af aðalleikurum í myndinni Battle of the Year, sem frumsýnd var um helgina í Bandaríkjunum, Chris Brown, segist í nýju blaðaviðtali vita að hann hafi gert hræðilega hluti í fortíðinni. En hann skilur ekki afhverju almenningur getur ekki fyrirgefið honum það sem hann gerði — einkum þegar horft er til þess að öðru fólki er fyrirgefið.
Í viðtali við nýjasta tölublað tímaritsins Jet, segir hinn 24 ára gamli Brown, að til dæmis hafi hip -hop tónlistarmaðurinn og rapparinn Jay Z sloppið við fordæmingu almennings. „Ég er ekki að segja þetta af vanvirðingu, því ég er aðdáandi [ Jay Z ] en enginn talar um að hann stakk mann og seldi eiturlyf,“ sagði Brown um Jay Z sem nýlega gaf út plötuna Magna Carta. Brown vísar þarna til þess að Jay Z lýsti sig sekan af ákærum um að hafa stungið hljómplötuútgefandann Lance „Un“ Rivera fyrir utan næturklúbb í New York í desember 1999. „Hann sleppur“.
Fólk hefur ekki verið jafn tilbúið að fyrirgefa Brown fyrir hans misgjörðir, segir hann, en þar er einkum átt við atvik frá árinu 2009 þegar söngvarinn réðst á kærustu sína á þeim tíma, söngkonuna Rihanna, rétt áður en Grammy verðlaunahátíðin fór fram. Brown ítrekar að hann vinni nú hörðu höndum að því að ná stjórn á reiðiköstum sem hann fær.



