Jared Leto snýr aftur sem Jókerinn

Óskarsverðlaunahafinn Jared Leto mun snúa aftur í hlutverki Jókersins og þá í væntanlegri leikstjóraútgáfu Justice League. Fréttamiðillinn The Hollywood Reporter greindi fyrst frá þessu og segir þar að Leto sé á meðal leikara sem eru áætlaðir fyrir sérstakar aukatökur á stórmynd Snyders sem sýnd verður á HBO Max á næsta ári.

Svonefnda „Snyder-klippið“ var upphaflega talið vera um 214 mínútur að lengd (e. þrír og hálfur tími), allt öðruvísi í tón og miklu meiri epík að sögn Snyders. Í sumar var tilkynnt að Justice League verði gefin út í fjórum hlutum á streymið og herma heimildir að framleiðsluteymi Snyders fái allt að 70 milljónir bandaríkjadollara frá HBO; til að klára myndina, slípa og stækka með aukatökum og tilheyrandi. Virðist sem að Snyder ætli sér að halda utan um það sem hefur þegar verið stillt upp í þessum DC heimi og grípur í þann Jóker sem hefur ekki enn hlotið sambærilegt lof og aðrir.

Leto steig fyrst á sjónarsviðið í hlutverki Jókersins árið 2016 með myndinni Suicide Squad. Myndin skilaði góðum tekjur en fékk arfaslakar viðtökur og þótti túlkun Letos vægast sagt umdeild, jafnt og viðvera hans í sögunni ef út í það er farið.

Leto hefur sjálfur ekki legið á skoðunum sínum með óánægju sína á lokaútkomunni og tók ekki vel í það hversu mikið efni af Jókernum hans lenti á klippigólfinu.

Nóg til af myndefni

Hreyfingin til að gera Snyder-klippið að veruleika hefur þá sett af stað kröfur fólks eða áhorfenda um að fleiri stórmyndir fái sömu meðferð. Þar er helst átt við um bíómyndir sem urðu fyrir gífurlegum afskiptum framleiðenda og gjörbreyttust í kjölfarið við neikvæðar viðtökur almennings.

Vill þá til að David Ayer, leikstjóri og handritshöfundur Suicide Squad, hefur tekið þátt í umræðunni og þætti honum sjálfum vænt um að upprunalegt klipp hans verði barið augum af aðdáendum.

Þó eftirvinnsluferli Suicide Squad hafi verið gerólíkt Justice League er víða þekkt að kvikmyndin hafi farið í gegnum ýmsar stökkbreytingar í klippiherberginu. Heilir þræðir voru látnir fjúka (á meðal þeirra haugur af senum með Jared Leto) og var lokaafraksturinn fjarri því sem Ayer sá upphaflega fyrir sér.

Ein af mörgum senum úr Suicide Squad sem lentu á klippigólfinu.

Ayer staðfesti á Twitter-síðu sinni fyrr á þessu ári að myndin hafi lent í „Edward Scissorhands ferlinu“ og myndi það lækna gömul sár að sjá upprunalega klippið gefið út. Segir hann að það sé afar þreytandi að fá „rassaspörk“ fyrir útkomu kvikmyndar sem hann fékk litlu ráðið um.

„Myndin sem ég gerði hefur aldrei verið birt,“ sagði hann.