Jakkinn hans Brody

Warner Bros. kvikmyndaverið sækist nú eftir óskarsverðlaunahafanum Adrian Brody í aðalhlutverk kvikmyndarinnar The Jacket. Brösulega hefur gengið að koma myndinni af stað, og ýmsir hafa verið orðaðir við hana. Upphaflega átti Colin Farrell að leika aðalhlutverkið, en honum var síðan skipt út fyrir Mark Wahlberg, og nú Brody. Í augnablikinu er frekar óþekktur leikstjóri að nafni John Maybury orðaður við leikstjórastólinn, en áður hafa bæði Antoine Fuqua og Marc Rocco verið nefndir til sögunnar. Myndin sjálf fjallar um mann með skyggnigáfu sem er saklaus í fangelsi fyrir morð. Hann þarf að nota gáfu sína til þess að komast að því hver framdi morðið áður en hann er sjálfur tekinn af lífi.