Jaeger uppreisnin hefst – fyrsta kitla úr Pacific Rim: Uprising

Star Wars leikarinn Jon Boyega býður áhorfendum að taka þátt í „Jaeger uppreisninni“ í fyrsta „ráðningarmyndbandinu“ fyrir Pacific Rim: Uprising, framhaldi hinnar ágætu Pacific Rim frá árinu 2013.

Pacific Rim myndirnar fjalla um innrás risaskrímsla til Jarðar og baráttu risavélmenna, sem menn stjórna, við skrímslin.

Áður en Boyega birtist á skjánum fáum við að sjá einnar mínútu langa kynningu fyrir nýjustu Jaeger vélmennin, þar á meðal hinn hrikalega Gipsy Avenger.

Framhald Pacific Rim hefur nú verið á teikniborðinu í þónokkurn tíma, en það var ekki fyrr en leikstjóri upphaflegu myndarinnar, Guillermo del Toro, hætti við verkefnið á síðasta ári að hreyfing komst á það fyrir alvöru.

Eftir að hann var farinn frá borði þá var tilkynnt að framleiðandi Daredevil sjónvarpsþáttanna, Steven S. DeKnight, myndi þreyta frumraun sína í leikstjórastóli með Pacific Rim: Uprising.

Talið er að myndin muni gerast nokkrum árum eftir atburði fyrstu myndarinnar, og segja sögu Jake Pentecost, sem Boyega leikur, sonar persónu Idris Elba, Stacker Pentecost, en hann horfði upp á dauða föður síns í fyrri myndinni.

Pacific Rim: Uprising verður frumsýnd 2. mars 2018 hér á Íslandi.

Sjáðu kitluna hér fyrir neðan: