Jackson vill stöðva umsnúning þyngdaraflsins

Bandaríski kvikmyndaleikarinn Samuel L. Jackson er nú um það bil að ljúka samningum um að leika í vísindaskáldsögunni Inversion, eða Umsnúningur,  samkvæmt frétt Variety.

samuel-l-jackson

Leikstjóri Inversion er Peter Segal, en tökur eiga að hefjast 27. febrúar nk. í Berlín. Í kjölfarið munu tökulið og leikarar flytja sig um set til Shanghai og Chicago.

Jackson mun leika yfirrannsakanda hjá Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna. Kínverska leikkonan Liu Yifei ( Once Upon a Time, The Forbidden Kingdom ) er einnig ný í leikhópnum.

Warcraft og Vikings leikarinn Travis Fimmel, er sömuleiðis á meðal leikenda í myndinni. Hann leikur bandarískan svikahrapp sem vinnur með ungum kínverskum eðlisfræðingi, sem Liu leikur, við að bjarga Jörðinni frá þyngdaraflstapi.

Persóna Jackson telur að þau, persónur Fimmel og Liu, eigi sök á umsnúningi þyngdaraflsins, og eltir þau yfir tvö meginlönd, til að reyna að koma í veg fyrir frekara tjón.

Jackson lauk nýlega við leik í Kong: Skull Island og The Hitman’s Bodyguard. Hægt er að berja hann augum í bíó þessa dagana í Miss Peregrine’s Home for Peculiar Children.