Jackson tekur Kong

Leikstjórinn Peter Jackson hefur ákveðið hvaða verkefni hann muni ráðast í eftir að lokaundirbúningi lokakaflans Return Of The King úr Lord Of The Rings þríleiknum lýkur. Ekki verður ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur á að endurgera klassíkina King Kong frá 1933. Eins og allir ættu að vita þá fjallar myndin um það hvernig risaapanum King Kong er rænt af Skull Island, heimkynnum sínum, og fluttur til New York. Þar sleppur hann og veldur miklum skaða og uppróti. Myndin verður gerð fyrir Universal kvikmyndaverið, og stefnt er að því að frumsýna myndina 2005. Þessi endurgerð hefur lengi verið draumur Jacksons, og var hann að vinna að henni áður en hann ákvað síðan að taka að sér Lord Of The Rings þríleikinn. Hann er með handrit tilbúið (sem sögusagnir segja að sé frábært), og líklegt er að ferillinn að finna réttu leikarana hefjist fljótlega. WETA Digital, brellustúdíó Jacksons, mun sjá um brellurnar fyrir þetta stóra verkefni, hún verður öll tekin upp á Nýja-Sjálandi, og tökur eiga að hefjast seint í sumar.