Af skiljanlegum ástæðum er ekki alltaf skynsamlegt fyrir ímynd leikara að rífa kjaft við fjölmiðla eða aðra í bransanum, en sumum er skítsama um hvað öðrum finnst og segja nákvæmlega það sem þeim sýnist á bestu tímum. Samuel L. Jackson er einn þessara leikara, og mér sýnist ekki annað en að hann líti bara svalari út fyrir vikið, eða að minnsta kosti djarfari. Ekki eru samt allir sammála því.
Það er kannski ekki það faglegasta í heimi að dissa gagnrýnendur opinberlega (heyrið þið það?!) en Jackson sætti sig ómögulega við það að nokkur A.O. Scott, kvikmyndagagnrýnandi hjá New York Times, mældi ekki með The Avengers, myndinni sem allur heimurinn er að tala um í dag (og milljónir manna hafa eflaust aldrei hlegið jafnmikið að orðinu „Adopted“).
Jackson er ofsalega líflegur náungi, og það skilar sér heldur betur í gegnum Twitter-síðuna hans, en þar einmitt gagnrýndi hann sjálfan gagnrýnandann, eða svo gott sem. Í Avengers-umfjöllun sinni gaf Scott myndinni tvær stjörnur af fimm og sagði að hlutverk Jacksons í myndinni væri meira líkt veislustjóra í stað yfirmanns öryggisstofnunar. Scott bætir því við að myndin er innihaldslaus og angandi af svartsýni. Jákvæðu punktarnir voru augljóslega ekki mjög margir, en þó einhverjir.
Jackson var miðpunktur forsíðufréttar New York Times blaðsins sem birti vondu umfjöllunina, og þess vegna var leikarinn alls ekki sáttur. Á Tístinu sagði hann að A.O. Scott þyrfti að fá sér aðra vinnu, og þá vinnu sem myndi henta honum almennilega. Sagt er að Jackson hafi haft samband við yfirmenn Scotts til að krefjast þess að hann yrði rekinn. En það varð alls ekki að veruleika.
Scott svaraði Jackson en umræðan hélt samt áfram við vefinn The Film Nest. Smátt og smátt fóru ummæli leikarans að verða barnalegri og hingað til hefur meirihlutinn stutt hlið gagnrýnandans í þessu máli, og Scott sagði sjálfur opinberlega að honum hafi fundist stuðningur lesanda vægast sagt óvæntur og indæll.
The Avengers þarf samt ekki að hafa neinar áhyggjur aðsóknarlega séð, og þrátt fyrir fáeinar undantekningar fær myndin frábæra dóma almennt.
Þið getið séð Twitter-síðuna hans Jacksons hér.
Og hér er það sem Scott hafði að segja.
Hvað segið þið? Kom Sammi eitthvað vel út úr þessu eða átti hann bara að halda þessu út af fyrir sig?