Jackie Chan opnar skemmtigarð

JackieChanHasarmyndaleikarinn Jackie Chan ætlar að byggja skemmtigarð í Kína. Garðurinn á að verða staðsettur í Yizhuang hverfinu í Peking. Chan hefur ekki látið uppi hversu mörg leiktæki verða í garðinum sem mun eiga að heita JC World.

Meðal þess sem verður til sýnis í garðinum eru hlutir eins og húsgögn og fjögur kínversk antík hús sem hann hefur safnað í gegnum tíðina.

Í samtali við dagblaðið Malaysia Times segir Chan: „Ég vil sýna allt dótið mitt. Það er kannski ekki mjög verðmætt, en það á sér sögu … ég var mjög fátækur þegar ég var barn, og þegar ég eignaðist peninga síðar meir, þá keypti ég alls kyns hluti og ferðaðist um heiminn til að safna hlutum.“

Garðurinn mun verða í fimm hlutum, og hver þeirra verður sérstakur menningarheimur. Enginn aðgangseyrir verður að garðinum, en rukkað verður í einhver af tækjunum. „Sextíu prósent af garðinum verður ókeypis, 40 % verður rukkað fyrir, og þeir peningar verða notaðir til að halda við antík húsunum … ég er ekki blankur.“

Opnunardagur garðsins er enn óákveðinn.