Þó að endurræsing J. J. Abrams á Star Trek hafi slegið rækilega í gegn vorið 2009 hefur heldur lítil hreyfing verið á framhaldi myndarinnar. Planið hjá Paramount var upphaflega að koma myndinni út sumarið 2012, en það er löngu orðið óraunhæft og er dagsetning sumarið 2013 talin líklegri. Nýlega hafa borist fréttir af því að hugmyndavinnan fyrir myndina sé komin á fullt, og handritshöfundarnir og ofurframleiðendurnir Roberto Orci, Alex Kurtzman og Damon Lindelof hafi gert pláss í dagskránni hjá sér fyrir Trek 2.
Nú er allavega eitt stórt skref að baki, J. J. Abrams hefur loksins skrifað undir að snúa aftur í leikstjórastólinn. Þetta eru ekki beint óvæntar fréttir, Abrams er búinn að vera að þróa myndina ásamt fyrrgreindum félagsskap, og telur hann væntanlega handritið komið á þann stað að hann sé tilbúinn til að skuldbinda sig myndinni. Sem að geta ekki talist neitt nema góðar fréttir að mínu mati.
Áður hefur verið greint frá því að áætlað sé að byrja framleiðslu myndarinnar í byrjun árs 2012 og ríma þessar fréttir ágætlega við það. Abrams tjáði sig einnig nýlega um framleiðslu myndarinnar, í viðtali við Collider og sagðist ekki vilja flýta sér í undirbúningsvinnunni, heldur leggja áherslu á að sagan, karakterarnir og starfskraftur myndarinnar væru á réttum stað áður en haldið væri í framleiðslu. Þetta gladdi ófáann ofurnjörðinn á veraldarvefnum, því alltof oft virðist opnunardagsetningin á stórmyndum sem þessum skipta meira máli en innihaldið.
Talandi um innihaldið, þá vitum við nánast ekkert um hvað myndin verður (þó að nóg hafi verið giskað), en áhöfnin á Enterprise er í það minnsta væntanleg aftur. Þannig að ég er allavega bjartsýnn að þetta verði almennileg mynd loksins þegar hún lætur sjá sig.
– Þorsteinn Valdimarsson