Forsýningarplögg? Auðvitað! En það hefur hvort eð er verið grjóthörð staðreynd að Kvikmyndir.is eltist einungis við gott efni til að forsýna, eða nánar tiltekið velur undirritaður ritstjóri/bíórýnir myndir til að sýna sem fá gott umtal (sem oftast er ekki af ástæðulausu).
Hvort sem það mætti líta á þetta sem plögg fyrir hlélausu forsýninguna okkar eða ekki, þá eru notendur samt sem áður hvattir til að kíkja á hana vegna þess að myndin er borin uppi af fagmönnum og hefur hvort eð er verið að moka inn góðri umfjöllun sem leggur mikla áherslu á óaðfinnanlegu tölvuteikninguna. Slíkt er hingað til betra að njóta í góðum bíósal – nema myndin sé glötuð!
Hér sjáið þið smá brot úr íslenskri kvikmyndagagnrýni fyrir myndina, sem ætti að höfða þokkalega til þeirra sem eru Tinnaaðdáendur:
„Spielberg sýnir Tinnaævintýrunum ekki bara virðingu heldur knúsar hann fyrirbærið fast að sér eins og ekkert sé dýrmætara í heiminum. Hergé djókaði oft með það að honum hafi fundist Spielberg vera eini maðurinn sem ætti að leikstýra Tinnamynd og það komment gat ekki mögulega hitt betur á. Leikstjórinn veit hvað hann er að gera og gjörsamlega fattar Tinna á nokkurs vafa. Stíllinn er réttur, húmorinn er réttur, fílingurinn er réttur og leikararnir ekki síður. Meira að segja kreditlistinn er svo réttur að maður veit á fyrstu mínútunni að heildin sé í góðum höndum. Ég mun aldrei segja að myndin sé nógu fullnægjandi til að vera kölluð hágæða- eða tímamótamynd, en ég skal hvítur hundur heita ef þetta er ekki ævintýralega skemmtileg ræma sem heldur glæsilegum dampi og er greinilega meira en örlítið trú uppruna sínum.“