Fjallað er ýtarlega um alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík á forsíðu blaðs 2 í Politiken í Danmörku í dag. Segir Hans Jørgen Møller, blaðamaður Politiken, að aðstandendur hátíðarinnar stefni að því að hún verði sú stærsta og virtasta á Norðurlöndum og þótt ljóst sé að talsvert vatn eigi eftir að renna til sjávar áður en það takist sé metnaðurinn til fyrirmyndar.
Sagt er frá myrkvuninni í Reykjavík á fimmtudag í tengslum við opnun hátíðarinnar og segir blaðið, að myrkvunin hafi mistekist vegna þess að þótt götuljósin hafi verið slökkt hafi auglýsingaskilti fyrirtækja logað víða. Hrönn Marínósdóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir að þetta hafi í raun verið tilraun. Hún sé viss um að betur takist til á næsta ári og þá verði samvinnan við fyrirtækin bætt.
Haft er eftir Birni Inga Hrafnssyni, formanni borgarráðs, að þar á bæ hafi menn tekið eftir því hvaða fyrirtæki létu ljósin loga og þau muni án efa verða samstarfsfúsari á næsta ári. Blaðamaður Politiken segir að Björn Ingi hafi ekki upplýst hvaða aðferðum verði beitt til þess.
Það vekur athygli Møllers, að meðal þeirra fyrirtækja sem styrkja kvikmyndahátíðina er Baugur, „fyrirtækið ágenga, sem stóð á bak við yfirtökuna á Magasin og Illum og mun bráðlega bera fríblaðið sitt, Nyhedsavisen, í dönsk hús,” segir í greininni.
Rætt er við leikstjórana Baltasar Kormák og Dag Kára í greininni en þeir vinna báðir að nýjum kvikmyndum. Baltasar segir að nú sé annað íslenskt kvikmyndavor og mikil bjartsýni ríki innan greinarinnar. Nú þurfi kvikmyndagerðarmenn að sýna fram á, að þeir geti fengið Íslendinga inn í kvikmyndahús til að horfa á íslenskar kvikmyndir; þjóðin kjósi frekar að horfa á bandarískar myndir.
Dagur Kári vinnur nú að mynd, sem hefur fengið vinnunafnið The Good Heart, og verður gerð í Bandaríkjunum. Hann hefur gert samning við Tom Waits og Ryan Gossling um að leika aðalhlutverkin og til stendur að hefja tökur í febrúar.
„Svo verðum við að sjá til hvort landar mínir vilji sjá myndina úr því það er Íslendingur, sem er við stýrið,” segir hann.
ATH! Frétt er tekin af mbl.is

