Ný stikla, sú önnur í röðinni, er komin fyrir nýju Tom Cruise myndina, Oblivion, en eins og flestir ættu að vita var hluti hennar tekinn hér á Íslandi síðasta sumar.
Myndin er vísindaskáldsaga eftir leikstjórann Joseph Kosinski, sem gerði Tron: Legacy.
Sjáðu stikluna hér að neðan:
Miðað við það sem maður sér í stiklunni mega menn eiga von á flottum tæknibrellum og áhugaverðri sögu.
Oblivion er byggð á teiknimyndasögu eftir Kosinski og Arvid Nelson og gerist í framtíðinni þegar jörðin er orðin óbyggileg. Það sem eftir lifir af mannkyni býr í einskonar skýjaborgum svífandi yfir jörðu. Myndin fjallar um hermann sem er sendur til yfirborðs jarðar til að leita uppi og tortíma framandi og óvinveittum lífverum. Njósnafar hans skemmist og hermaðurinn situr einn fastur á jörðinni. Tom Cruise leikur hermanninn sem lendir óvænt í því að rekast á fallega konu á jörðinni og þarf hermaðurinn að meta hvort konan sé raunveruleg manneskja eða dulbúin óvinveitt geimvera, sem honum ber að drepa.
Myndin verður frumsýnd í Bandaríkjunum 19. apríl nk.