Ísland í brennidepli á RIFF

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leggur metnað sinn í að kynna íslenska kvikmyndagerð fyrir umheiminum. Hátíðin er sótt af fjölda erlendra blaðamanna og því kjörinn stökkpallur fyrir myndir sem eru að hefja ferð sína um heiminn. Á hátíðinni í ár, sem stendur frá 27. september til 7. október, verða fimm íslenskar myndir í fullri lengd frumsýndar, auk fjölda stuttmynda. Alls verða fjórtán íslenskar myndir frumsýndar á hátíðinni. Myndirnar verða sýndar undir formerkjum flokksins „Ísland í brennidepli.“

Þessi mikli fjöldi frumsýninga kemur til því aðstandandendur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar fundu fyrir miklum áhuga hjá erlendum blaðamönnum á að kynna sér nýja íslenska kvikmyndagerð fyrir ári síðan. Ákveðið var að bregðast við þessum gríðarlega áhuga með því að frumsýna enn breiðara úrval íslenskra kvikmynda í ár. Í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands býðst erlendum gestum hátíðarinnar einnig að sjá aðrar nýlegar íslenskar myndir eftir því sem áhugi er fyrir.

Þegar hefur verið sagt frá því að myndirnar Sigur Rós – Heima og Embla verði frumsýndar auk úrvals nýrra íslenskra stuttmynda.

Allt í allt verða eftirfarandi íslenskar myndir frumsýndar á hátíðinni:

Steypa – Markús Þór Andrésson og Ragnheiður Gestsdóttir
Óbeisluð fegurð – Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Tina Naccache
Vandræðamaður (Den Brysomme Mannen) – Jens Lien
Síðasti veturinn (The Last Winter) – Larry Fessenden
Embla: Valkyrja hvíta víkingsins – Hrafn Gunnlaugsson
Sigur Rós – Heima

Íslenskar stuttmyndir:

Bræðrabylta – Grímur Hákonarson
Skröltormar – Hafsteinn Gunnar Sigurðsson
Þokufjöll – Óskar Þór Axelsson
Takk fyrir hjálpið – Benedikt Erlingsson
Border Work – Tom Wright
Herra Hyde – Vera Sölvadóttir
Hundur – Hermann Karlsson
Í frostinu – Jón Atli Jónasson

Auk þessara verða myndirnar Sófakynslóðin (leikstj. Áslaug Einarsdóttir og Garðar Stefánsson) og Anna (leikstj. Helena Stefánsdóttir) sýndar á hátíðinni.

Nánar um myndirnar sem hafa bæst við, og er skemmtilegt að lesa fyrir þá sem vilja grennslast betur fyrir um íslensku myndirnar:

Steypa er heimildarmynd sem fylgir sjö listamönnum eftir um tveggja ára skeið. Þau eru öll að koma undir sig fótunum heima og erlendis og tengjast hvert öðru á ýmsan hátt. Steypa gefur innsýn í vinnuferli og viðhorf þessarar kynslóðar, sýnir hvernig hugmyndir fæðast og eru útfærðar í listaverk. Vel heppnuð sneiðmynd af grósku íslenskrar samtímalistar.

Óbeisluð fegurð gerir grein fyrir óvenjulegri fegurðarsamkeppni sem fór fram í samkomuhúsi í Hnífsdal og vakti nokkra athygli. Reglurnar voru einfaldar: Keppendur þurftu að vera minnst 20 ára gamlir, máttu ekki hafa farið í lýtaaðgerð, þeir þurftu ekki að léttast né bæta á sig til að taka þátt; eina skilyrðið var að vera venjulegur.

Vandræðamaður er önnur mynd norska leikstjórans Jens Lien, en hún er framleidd af Ingvari Þórðarsyni og Júlíus Kemp me ðal annarra. Hún segir af Andreas sem rankar við sér í ókunnugri borg þar sem tilgerðarbros, vinnuþrælkun og grámygla ráða ríkjum. Andreas getur ekki hugsað sér að aðlagast umhverfinu og reynir allt til að brjótast í gegnum eintóna yfirborðið. Kvikmyndin dregur upp ýkta og ógnvekjandi mynd af samfélagi þar sem mannlegt eðli hefur vikið endanlega fyrir tómarúmi neyslumenningar.

Síðasti veturinn er íslensk meðframleiðsla í leikstjórn eins áhugaverðasta hryllingsleikstjóra samtímans, Larry Fessenden. Myndin er að mestu leyti tekin hér á landi og stærstur hluti tökuliðsins er íslenskur. Í myndinni er sagt frá ótta sem grípur um sig á olíuborstöð í Norður-Alaska þegar einn úr hópnum finnst látinn.

Hundur er melankólísk og gráglettin saga um dauða hunds og viðbrögð fólks við honum. Þetta er tvívíð teiknimynd þar sem stuðst er við blandaða tækni. Myndin var hluti af útskriftarverkefni leikstjórans Hermanns Karlssonar í mastersnáminu í hreyfimyndagerð við Edinburgh College of Art.

Góða skemmtun!