Franska kvikmyndin Intouchables var frumsýnd á Íslandi fyrir nokkrum vikum og nú er óhætt að fullyrða að hún sé búin að slá í gegn, en það stefnir í að hún slái öll aðsóknarmet fyrir myndir Græna Ljóssins. Intouchables er búin að vera í bíó í þrjár vikur og yfir 12.000 manns hafa lagt leið sína á hana í kvikmyndahúsum borgarinnar.
The Intouchables er byggð á sannri sögu. Philippe er franskur auðmaður sem slasast illa í fallhlífarsvifi og lamast við það fyrir neðan háls. Þetta verður honum að sjálfsögðu mikið áfall ekki síst vegna þess hversu lífglaður útivistarmaður hann var fyrir slysið. Þegar Philippe er ásamt aðstoðarkonu sinni að ráða einhvern til að annast sig sækir um starfið ungur maður, Driss, en hann er með heldur vafasaman feril að baki. Driss sjálfum til mestu furðu ræður Philippe hann þrátt fyrir að ljóst sé að fagleg þekking hans á umönnun fatlaðra er engin. En Philippe hefur sínar ástæður fyrir því að honum leist best á þann sem engan séns átti í starfið.
Það sem er sérstakt við frumsýningu myndarinnar er að hún opnaði ekki það stórt fyrstu frumsýningarhelgina. Aðsóknin tók hins vegar stóran kipp mánudaginn eftir frumsýningu og var aðsóknin um síðustu helgi um 30% meiri en helgina þar áður.
Græna Ljósið reiknar með að 20-25 þúsund manns eigi eftir að sjá myndina í kvikmyndahúsum áður en sýningum lýkur. Ef það gerist er ljóst að Intouchables slær alls konar met, m.a. sem aðsóknarhæsta franska mynd allra tíma á Íslandi, aðsóknarhæsta evrópska mynd allra tíma á Íslandi og aðsóknarhæsta mynd allra tíma með erlendu tungumáli.
Undirritaður hefur séð myndina og setti hana í fyrsta sæti yfir bestu myndir ársins það sem af er (listinn er væntanlegur á Kvikmyndir.is). Ég mæli hiklaust með henni og ábyrgist það að ykkur mun líða vel í sálinni eftir þessar 120 mínútur.